144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hvorki ég né hv. þingmaður munum stjórna því hvernig makríllinn hagar sér á næstu árum. Það verður bara að takast á við það hvernig sem það verður. Auðvitað munu þeir veiða sem hafa möguleika á að veiða og ef makríllinn hyrfi frá ströndum landsins og væri lengra í burtu og uppsjávarskipin gætu eingöngu náð í hann mundu þau auðvitað veiða hann, það segir sig sjálft. Þess vegna lít ég þannig á að við eigum ekki að njörva þetta svona niður og setja verðmiða á aflaheimildir því að það verður bara að koma í ljós hvernig hegðun makrílsins, sem komið hefur að Íslandsströndum á undanförnum árum, verður í framhaldinu.

Ég hef talað fyrir því að aflaheimildir á makríl séu leigðar, auðvitað með lagastoð, og að horft verði til veiði síðustu ára til að hafa til hliðsjónar við úthlutun og skipta leigupottinum upp í kannski þrjá hluta. Ég sagði ekki að tillagan um 18% til smábáta væri mín. Ég vísaði í Landssamband smábátaeigenda í þeim efnum. Þar þarf auðvitað að nást samstaða og samkomulag eins og um alla hluti. En 10 kr. — 1,5 milljarðar er ekki há upphæð miðað við heildaraflaverðmæti makríls á síðasta ári. Það er mjög lág upphæð, lítið afgjald fyrir að eignast þennan kvóta varanlega. Hv. þingmaður þekkir vel til útgerðar. Hvað kostar varanlegt kíló af þorski í dag? Hvað kostar það (Forseti hringir.) miðað við 10 kr. á kíló af makríl?