144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[17:39]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal bara viðurkenna að ég er ekki sammála hv. þingmanni um að þetta sé einhver eignarkvóti. Þjóðin á fiskinn í sjónum. Ég hélt reyndar að við værum sammála um það. Menn eignast ekki neitt hér. Ég lít ekki svo á að menn séu að eignast eitthvað þarna, það er tímabundið til sex ára. Ég lít ekki svo á að útgerðin sé að eignast neitt. Ég lít á þetta sem afgjald. Ég lít á þetta sem auðlindagjald. Þó að hv. þingmanni finnist ekki 1,5 milljarðar há upphæð getur sú upphæð verið há þegar maður er búinn að deila henni niður á þá sem þurfa að greiða hana. Ég veit að fyrir fljótandi frystihús eða fyrir stórfyrirtæki sem ná rentunni bæði úr veiðum og vinnslu deilist kostnaðurinn bæði á veiðar og vinnslu. En þau skip sem eru aðeins á veiðum borga 18 kr. fyrir fisk sem fást kannski 50–80 kr. fyrir á mörkuðum, það er opinbert verð. Ég tek því ekki undir að þetta séu smáaurar.

Varðandi það að missa ekki þessi verðmæti, þá er ég hlynntur því að við höfum alla flóruna og leyfum smábátaflotanum að veiða, ég hefði kannski viljað hafa það hærra en 5%. En uppsjávarflotinn veiðir allt frá Grænlandsmiðum og upp til Noregs og til Færeyja. Hann veiðir í Norðurhöfum, þannig að eftir því sem við (Forseti hringir.) festum meira á smábátaflotann eru meiri líkur á því að þar tapist ákveðin verðmæti.