144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[17:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp er komið fram og heiti því að innan atvinnuveganefndar, þeirrar nefndar sem fær þetta mál og ég sit í, mun ég leggja mikla áherslu á að við vinnum það hratt og vel og klárum það áður en þingi lýkur í lok maí.

Hæstv. ráðherra gat um þá vinnu sem hófst í tíð síðustu ríkisstjórnar með skipun starfshóps sem fór yfir þessi mál og skilaði tillögum eins og hér er fjallað um. Ég vil segja að mér finnst það líka til eftirbreytni, og ráðherrar í núverandi ríkisstjórn ættu að gera það oftar, og reyndar við öll, að taka það sem vel hefur verið gert á liðnum árum og halda áfram með það líkt og hér er verið að gera. Vinna þessi hófst sem sagt í tíð síðustu ríkisstjórnar þó að við höfum ekki getað klárað málið, en ég minni þó á að í fyrsta skipti í 10 eða 12 ára sögu var á þeim erfiðleikatímum sem þá voru aukið fé til niðurgreiðslna um 230 millj. kr., ef ég man rétt.

Ég fagna því frumvarpi sem hér er komið fram og þeirri leið sem fara á hvað þetta varðar til fullrar jöfnunar en bendi þó á að áfram munar mjög miklu milli húshitunar á köldum svæðum og síðan á hitaveitum á mörgum stöðum á landinu. En ástæða þess að ég kem í andsvar við hæstv. ráðherra er eingöngu það sem fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins. Þar segir það vanti 250 millj. kr. í niðurgreiðslupottinn til að gera það sem frumvarpið segir til um … (Gripið fram í: 215 millj. kr.) 215 millj. kr. Ég vona að ég hafi ekki verið að tala um milljarða. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig á að fjármagna þetta? Hvernig verður það fjármagnað við næstu fjárlagagerð? Í öðru frumvarpi sem við vorum að ræða voru um 220 millj. kr. inni, að mig minnir, sem áttu að falla niður vegna þess að við erum búin að leggja kostnað á aðra notendur til niðurgreiða dreifingu í dreifbýli. Er ekki tryggt að eitthvað af þeim peningum komi beint úr ríkissjóði, að ekki (Forseti hringir.) verði hækkaður kostnaður á aðra (Forseti hringir.) meira en búið er að gera?