144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[18:18]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég verð, eins og aðrir þingmenn sem talað hafa hér á undan, að fagna því sérstaklega að þetta mál sé komið fram og fagna því að hæstv. iðnaðarráðherra hefur mælt fyrir því. Þetta mál er í beinu framhaldi af samþykkt okkar frá 3. mars 2015 þar sem við stigum það skref að jafna gjaldskrár í flutningi og dreifingu rafmagns milli dreifbýlis og þéttbýlis, eitt af þessum, í stóra samhenginu, litlu málum sem skipta svo miklu máli fyrir landsbyggðina. Þetta byggir á margra ára baráttu og margra ára vinnu. Ég vil sérstaklega nefna Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum, nefndastarf sem bæjarstjórinn í Snæfellsbæ fór fyrir, Kristinn Jónasson.

Ég ætla að rifja það upp hér að fyrsta haustið sem ég sat í fjárlaganefnd og við tókum á móti sveitarstjórnum, sem gerðu athugasemdir og komu fram sjónarmiðum sínum við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp á þeim tíma, stóð upp úr þeim mörgum þessi setning: Það á að flytja frumvarpið sem Einar Kristinn Guðfinnsson hefur flutt um jöfnun húshitunarkostnaðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Núverandi forseti hæstv. Alþingis hafði þá kjörtímabilið á undan flutt ásamt fleirum frumvarp um jöfnun húshitunarkostnaðar, þannig að margir hafa lagst á sveif í þeirri baráttu að stíga þessi skref. Ég vil rifja sérstaklega upp þessi sjónarmið sveitarfélaganna og fjárlaganefndar það haustið.

Það má segja að með samþykkt þessa frumvarps sé gjaldið fyrir raforkuna dregið enn sterkara fram í dagsljósið en áður. Nú er flutningskostnaðurinn ekki að trufla það lengur. Auðvitað vaknar þá umræðan um mismunandi orkukostnað og mismunandi aðstæður byggðanna. Það er eðlilegt að við þurfum að takast á við þá umræðu í framhaldinu. En það má svo sem gera margt til að lækka orkuverð og orkukostnað. Í fyrsta lagi má, fyrir íbúa, leita hagkvæmari innkaupa á rafmagni. Það hafa verið aðgerðir í þá veru að létta fólki kaup á varmadælum og lækka orkukostnað heimilanna með þeim hætti, þannig að mörg fleiri úrræði eru til, en hann hleypur ekki alveg frá okkur þessi mismunur sem verður á milli landsvæða þegar þetta hefur gengið í gildi og verður bara önnur umræða og annað verkefni að fást við það.

Það má líka segja að ekki megi deyfa hvatann til að leita hagkvæmari orkukosta til lengri tíma eins og að stunda jarðhitaleit eða finna aðra orkugjafa til að hita húsnæði. Það er afskaplega fín lína þarna á milli því að hitaveitur á þeim svæðum sem nú eru að leggja hitaveitur eru óskaplega dýrar. Þó að við gerum ekki lítið úr þeirri breytingu sem varð hér á fyrra kjörtímabili, um 12 ára framlag til að styrkja slíkar hitaveitulagnir, þá er kostnaður íbúa á þeim svæðum sem nú eru að leggja slíkar hitaveitur gríðarlega mikill og mögulega getur þetta með einhverjum hætti deyft þátttökuviljann í því. Þá er líka mikilvægt að við missum ekki sjónar á því hvernig við viljum nýta þær orkulindir sem við höfum í landinu og tryggja þátttöku í notkun þeirra og í nýbyggingu á þeim hitaveitum.

Ég fagna sérstaklega ákvæði í þessu frumvarpi sem fjallar um að nota orðið „eldsneyti“ frekar en „olía“. Ég held að það sé löngu tímabær breyting því að þannig háttar einfaldlega til að til eru margir fleiri orkugjafar, meira að segja á Íslandi, en bara olía, heitt vatn og rafmagn. Ég vil nefna reka. Ég hef komið í félagsheimili í sveit þar sem fjörurnar voru fullar af viði, en félagsheimilið kalt og illa kynt vegna þess að það var dýrt að kynda það. Orkan lá í raun nokkra metra frá félagsheimilinu. Í framhaldi af þessu skrefi mætti hugsa sér annars konar verkefni, hvatningu til að byggja upp slíkar orkunýtingaraðferðir, hvort sem við erum að ræða um við eða mó eða slíka hluti. Síðan er eitt sem mér finnst gaman að minna á — má vera að ég sé farinn að ryðga í tölum, ég hef þá bara fyrirvara á því sem ég ætla að segja hér. Mér leyfist vonandi, frú forseti, að nefna orðið mykja í ræðustól á Alþingi, en þá erum við að tala um aðra orkugjafa sem sveitirnar geta nýtt sér. Með einföldum búnaði má nýta metan sem hægt væri að leysa úr haughúsi í 40 kúa fjósi og gæti það gefið orkugildi sem samsvarar 4.000–6.000 lítrum af olíu. Þetta er gríðarlega mikil orka sem með einföldum búnaði og einföldum hætti mætti nýta til að hita vatn og búa þar með til hringrás að hitaveitu á viðkomandi bæ.

Þó að við náum þeim áfanga sem hér er undir blasa við fjölmörg önnur tækifæri og fjölmörg önnur verkefni. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri. Við í atvinnuveganefnd förum yfir umsagnir og sjónarmið sem fram koma í meðförum málsins frá þeim sem veita umsögn.

Enn og aftur segi ég: Ég fagna því sérstaklega að við séum að ná þessum áfanga. Hann skiptir gríðarlega miklu máli á mörgum svæðum á landinu og er gott dæmi um það hvernig ríkisstjórnin nálgast það verkefni sitt að jafna sem best búsetuskilyrði í landinu. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér, Guðbjartur Hannesson, fjallað að vísu um fjölmarga aðra þætti og pósta sem við getum örugglega verið sammála um þvert á flokka í þessum ræðustól að þurfi að nást, en hér er hillir alla vega undir einn áfanga.