144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[18:36]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að fagna, líkt og félagar mínir hafa gert. Þetta er stór áfangi sem við erum að ná í að jafna búsetuskilyrði um landið. Eins og við þekkjum hefur verið talsverður munur á orkukostnaði eftir landsvæðum og þekkja það margir á eigin skinni. Ég þarf svo sem ekki að rekja söguna meira en gert hefur verið og ég ætla ekki að lengja umræðuna en það er gaman að segja frá því sem raundæmi að sveitungi minn flutti í höfuðstaðinn, sá hversu allt var auðvelt þar og mikill munur var á öllum reikningum varðandi rekstur á húsi. Glaður borgaði hann lága reikninga varðandi húshitunarkostnað, en komst svo að því að hann hafði verið að borga fyrir alla sameignina. Samt var hann að borga minna en fyrir hús sitt í heimabyggð sinni. Þetta er dæmi um það hvernig hlutirnir eru í raun.

Það er mikið fagnaðarefni að við skulum vera að stíga þetta skref. Þegar höfum við stigið ákveðið skref í átt að fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku með upptöku jöfnunargjalds á þá raforku sem fer til dreifiveitna landsins. Í þessu frumvarpi er verið að leggja lokahönd á að koma til framkvæmda þeim tillögum sem lagðar voru fram í áðurnefndri skýrslu starfshópsins frá 2011. Hér er langt ferli að baki sem ég bind vonir við og ég trúi því statt og stöðugt að við munum leiða það til lykta og vera sammála um að bæta búsetuskilyrði til muna í landinu. Ég hlakka til þeirrar vinnu.