144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

698. mál
[18:38]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur farið fram. Hún staðfestir það sem mig grunaði og vonaði, að um þetta mál gæti náðst breið pólitísk samstaða.

Ég hef ekki miklu við að bæta en vil þó þar sem fjárveitingar á fjárlögum og í ríkisfjármálaáætlun bar á góma koma inn á það að, eins og ég sagði í andsvari við hv. þm. Kristján L. Möller, gert verður ráð fyrir þessum kostnaði í fjárlagatillögum ráðuneytis míns við fjárlagagerðina fyrir næsta ár, enda er gert ráð fyrir þessum kostnaði frá og með næsta ári en ekki á þessu ári. Upphaflega stóð til að gera þetta í tveimur skrefum, þ.e. ég ætlaði að koma með þingsályktunartillögu til að fá fram afstöðu þingsins til þessara málaflokka, en eftir að hafa m.a. svarað fyrirspurnum og rætt málin oft og ítrekað á þinginu tókum við þá ákvörðun í ríkisstjórninni að gera þetta í einu skrefi, að koma fram með frumvarpið, og það verður að sjálfsögðu gerð breyting á þeirri langtímafjárhagsáætlun sem er til meðferðar í þinginu til samræmis við það.

Ég vildi koma því að og þakka aftur fyrir umræðuna. Ég vonast til þess að við getum afgreitt þetta frá þinginu í góðri sátt innan tíðar.