144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[18:40]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, á þskj. 1178, í máli nr. 704.

Frumvarpið er samið af starfshópi á mínum vegum, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, en hópurinn er enn að störfum og mun áfram vinna að einföldun og endurbótum á þessum lögum, m.a. á grundvelli skýrslu sem unnin var og skilað til mín í fyrra, í maí 2014, um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu.

Með frumvarpinu er ætlunin að skýra flokkun gististaða og gera skráningu á heimagistingu ákjósanlegt úrræði fyrir aðila sem leigja nú þegar út heimili sín til ferðamanna hluta úr árinu. Þannig mun leyfislausri og óskráðri gistingu fækka, sem er m.a. tilgangur frumvarpsins, ásamt því að við einföldum umsóknarferlið. Auk þess má ætla að samhliða einföldun dragi úr svartri atvinnustarfsemi til lengri tíma.

Þær breytingar sem frumvarpið boðar eru eftirfarandi:

Breytt skilgreining á heimagistingu. Í frumvarpinu er lögð til útvíkkun á flokki heimagistingar en hann er flokkur I samkvæmt núgildandi lögum og er skilgreindur sem gisting á heimili leigusala gegn endurgjaldi. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki verði heimilt að starfrækja heimagistingu, hafi þeir skráð sig á vefsvæði sýslumanns á viðkomandi stað og greitt skráningargjald sem nemur um 8 þús. kr. Þessir aðilar fara þannig ekki í sama umsagnarferli og umsækjendur um gistileyfi í öðrum flokkum og er lögaðilum ekki heimilt að skrá sig í flokk heimagistingar. Aðilum ber einnig að uppfylla kröfur um brunavarnir sem fram munu koma í reglugerð, svo sem varðandi fjölda reykskynjara og annarra brunavarna.

Útvíkkun heimagistingar felst enn fremur í því að aðilum verður nú heimilt að leigja út lögheimili sitt auk einnar annarrar fasteignar í eigu viðkomandi. Er þar komið til móts við einstaklinga sem vilja geta leigt út sumarhúsið sitt eða frístundaíbúð. Á móti kemur að þeim aðilum sem eru skráningarskyldir verður aðeins heimilt að leigja út viðkomandi eignir í átta vikur samtals á ári hverju. Þetta nýmæli er tilraun til þess að auðvelda einstaklingum að leigja út heimili sitt hluta úr árinu og eins er markmiðið að skilja skýrlega milli slíkra einstaklinga og þeirra einstaklinga eða lögaðila sem hafa gististarfsemi að aðalstarfsemi sinni allt árið og ber því að hafa rekstrarleyfi sem gististaður í flokkum II, III eða IV.

Þá er gististarfsemi, þar með talin heimagisting, starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og því verður enn nauðsynlegt að afla starfsleyfis frá heilbrigðiseftirliti á viðkomandi svæði.

Með frumvarpinu eru felld úr gildi viðmið og skil milli flokka byggð á opnunartíma veitingastaða til kl. 23. Stafar þessi breyting af ákveðnum vandkvæðum sem skapast þegar umfangslitlir veitingastaðir óska eftir að hafa eldhús sín opin lengur en til kl. 23. Slíkir veitingastaðir hafa allir þurft rekstrarleyfi í flokki III sem hugsaður er fyrir umfangsmikla veitinga- og skemmtistaði. Með því að fjarlæga viðmiðið um tímann er það sett í hendur leyfisveitanda og umsagnaraðila á hverjum stað að meta hvort starfsemi veitingastaðar teljist umfangsmikill eða umfangslítill.

Önnur breyting sem í frumvarpinu felst er að umsagnir verða sameinaðar. Í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks felst í frumvarpinu sameining á umsögnum sveitarfélags og byggingarfulltrúa enda starfar byggingarfulltrúi innan sveitarfélagsins og því þykir eðlilegt að frá sveitarfélaginu komi aðeins ein umsögn. Samkvæmt frumvarpinu taka lögin þegar gildi, en samkvæmt ákvæði til bráðabirgða skulu útgefin rekstrarleyfi fyrir heimagistingu í flokki I halda gildi sínu fram að endurnýjun samkvæmt leyfisbréfi.

Markmið frumvarpsins er að bregðast við þróun í gistiframboði og leyfislausri starfsemi sem nú tíðkast nokkuð. Við erum með öðrum orðum að viðurkenna þann veruleika sem við þekkjum með bættri tækni og fjölgun gistirýma á svokölluðum Airbnb-síðum og þess háttar heimasíðum þar sem menn hafa skráð húsnæði sitt og hafa kvartað mikið yfir því að leyfisferlið sé flókið, sem hefur komið í veg fyrir að fólk hafi skráð gistinguna eins og við erum að vonast til að gerist með þessu.

Þá er einnig markmiðið að einfalda regluverkið, svo sem með fækkun umsagna og sérstöku skráningarferli í stað leyfisveitinga fyrir flokk heimagistingar. Frekari aðgerðir í þágu einföldunar á umræddum lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald munu fylgja á næstu mánuðum og er hópurinn sem nefndur var í upphafi enn að störfum og mun halda áfram þessari vinnu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.