144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[18:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar varðandi veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Það sem vekur athygli, þegar maður les frumvarpið, er að þarna er fyrst og fremst verið að glíma við að einfalda kerfið og einfalda skráninguna og minnka stjórnsýsluna í kringum það, sem er í sjálfu sér mjög mikilvægt.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af því sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði hér áðan: Hvernig getum við tryggt að þetta leiði til þess að það dragi úr svartri atvinnustarfsemi, það hlýtur líka að vera markmiðið, og hvernig getum við tryggt að eftirlit verði á viðkomandi stöðum? Í þriðja lagi hef ég áhyggjur af tryggingum þeirra sem leigja hjá þessum einkaaðilum, hvort það þurfi ekki að koma fram á netinu að leigi einstaklingar hjá þessum aðilum séu þeir ótryggðir. Það er engin ábyrgðartrygging hjá viðkomandi leigusala eða hvað?

Ég spyr vegna þess að ég hreinlega þekki þetta ekki. Ég tel gríðarlega mikilvægt, í samkeppni af þessum toga, þar sem inn koma aðilar og leigja út íbúðirnar sínar, að það sé ljóst að trygging sé ekki innifalin.