144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[18:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar aðeins að fylgja því betur eftir af því að ég sé að formaður atvinnumálanefndar er hér en sú nefnd fær málið til frekari skoðunar. Það er góðra gjalda vert að það sé einfaldara að skrá sig, að hvatningin sé í þá átt. Ég held að það sé mjög mikilvægt og vonandi að það verði þannig. En það þarf líka að vera möguleiki að fylgja hlutunum eftir. Hvernig aðstöðu er verið að bjóða upp á, eru einhverjar reglur um það? Geta menn leigt út hvað sem er bara með því að skrá það á netinu?

Eins og ég sagði hér áðan þarf líka að vera ljóst hvaða réttindi fylgja því að leigja hjá viðkomandi aðilum og hvaða réttindi fylgja ekki, þ.e. að ljóst sé að menn séu ótryggðir, það sé engin ábyrgð. Það er augljóst, miðað við það sem fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins, að eitt starf hjá sýslumanni heldur ekkert utan um þetta ef umtalsverð breyting á að verða á þessum þætti.

Ég styð sem sagt einföldunina, en ég held að við þurfum að stíga miklu stærri skref. Það er nefnt í frumvarpinu að þetta sé bara fyrsta skref (Forseti hringir.) til að ná utan um þessa starfsemi og tryggja að hún sé lögleg.