144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[18:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, sem slær út af fyrir sig ekki á áhyggjur mínar. Nú vill svo til eins og hæstv. ráðherra þekkir kannski og man eftir að ég spurði hana út í þessi mál í fyrra og í fyrradag spurði ég innanríkisráðherra út í þessi mál, um eftirlit með gistirými, og hvernig menn ætla að haga sér í þessu. Málið er að á Airbnb-síðunni í gærmorgun voru auglýstar á Reykjavíkursvæðinu 503 íbúðir og herbergi. Mínar heimildir úr þessum bransa hafa sagt mér að það séu jafn mörg herbergi og íbúðir til leigu í Reykjavík eins og öll hótelgisting, jafn mörg herbergi og íbúðir. Mér líst ekki alveg á hvernig eftirlitinu á að vera háttað. Sýslumaður á að sjá um hluta, lögreglan um hluta. Nú er búið að slíta þetta í sundur. Hvernig ætla menn að framfylgja þessu? Á sýslumaður að aðvara lögreglu? Á lögreglan að gera þetta að frumkvæðismáli? Hvernig ætla menn að haga eftirlitinu?