144. löggjafarþing — 89. fundur,  15. apr. 2015.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

704. mál
[19:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í greiningarvinnu sem unnin var á vegum velferðarráðuneytisins varðandi húsnæðistillögur, varðandi húsnæðisfrumvörp sem voru að koma frá ríkisstjórninni kom fram að fjöldi íbúða væru í svartri leigu. Ég fagna því þeim skrefum sem stigin eru hér í því að reyna að koma þeim íbúðum inn á markað þar sem tekjum og gjöldum og sköttum er skilað af þeim, þótt við vitum og gerum okkur grein fyrir því að það er fjöldi íbúða sem við þurfum að ná til á annan hátt.

Mig langar spyrja. Víða í sumum sveitarfélögum þar sem er mikill ferðamannastraumur er mikið af íbúðarhúsnæði sem er gefið upp leigt til ferðamanna. Hefur það eitthvað verið kannað? Þetta skapar sums staðar ákveðna ólgu á milli íbúa í íbúðarhverfum þar sem er mikill erill vegna ferðamanna sem koma og fara. Hefur eitthvað verið horft til þessa hóps?