144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

staðan á vinnumarkaði.

[10:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að hún mætti helst ekki vera dauð, en mér sýnist ástandið vera þannig að hún sé dauð. Þjóðarsáttin gekk á sínum tíma út á það að í mörg ár á undan höfðu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins samráð. Allir gáfu eftir, ríkisvaldið í gjaldskrárhækkunum, verkalýðurinn gaf eftir í kaupkröfum og atvinnurekendur í öðru. Menn náðu saman á löngum tíma í þessu.

Þá langar mig að spyrja: Ef þjóðarsáttarhugsunin er ekki dauð, hvað er ríkisstjórnin búin að gera til að reyna að ná þessu samráði á vinnumarkaði? Hvað stendur til? Á til dæmis að lækka tryggingagjaldið sem er rosalega hátt eftir erfiða tíma? Það mundi hjálpa atvinnurekendum að hækka laun, bara svo dæmi sé tekið. Hvað stendur til og hvað hefur ríkisstjórnin gert? Það blasir við kjötskortur í landinu út af (Forseti hringir.) ástandi á vinnumarkaði. Ef Framsóknarflokkurinn er nú til einhvers ætti hann að minnsta kosti að tryggja okkur kjöt.