144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

leyniskýrslur fyrir kröfuhafa.

[10:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla bjóða hæstv. forsætisráðherra velkominn í húsið og óska honum til hamingju með góða kosningu á landsfundi Framsóknarflokksins.

Mig langaði að vísa í grein sem var birt á Stundinni, með leyfi forseta:

„„Leyniskýrslurnar“ sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vísaði til í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarmanna eru fréttabréf sem fjölda kröfuhafa berst reglulega frá Einari Karli Haraldssyni almannatengli og ráðgjafa slitastjórnar Glitnis. Fullyrðingin um að Framsóknarflokkurinn gæfi ekki eftir íslenska hagsmuni er úr slíku bréfi, að því er fram kemur í grein eftir viðskiptaritstjóra DV. […]

Í skrifum viðskiptaritstjórans kemur hins vegar ekki fram að þau orð sem Sigmundur las upp eru tilvitnun fréttabréfsritara í pistil eftir Ásmund Einar Daðason, þingmann og aðstoðarmann forsætisráðherra, sem birtist fyrr á þessu ári. Einar Karl benti á þetta í nýjasta fréttabréfi sínu til slitastjórnar Glitnis […].

Í viðtali Björns Inga Hrafnssonar við Sigmund Davíð í þættinum Eyjunni […] var Sigmundur spurður sérstaklega um umrædda tilvitnun. Tók forsætisráðherra þá fram að fyrra bragði að þarna væri ekki verið að vitna í mat framsóknarmanna sjálfra heldur væri þetta „mat þessara aðila sem eru fengnir til að kortleggja stjórnmálin og greina þau“.

„Við vitum að fulltrúar kröfuhafanna hafa tekið saman persónulegar upplýsingar um stjórnmálamenn, blaðamenn og aðra sem hafa tjáð sig um þessi mál eða teljast líklegir til að geta haft áhrif á gang mála,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni og bætti við að „í sumum tilvikum hafa verið gerðar sálgreiningar á fólki til að átta sig á því hvernig best sé að eiga við það.““

Í ljósi þess að eitthvað af þessu eru bara fréttabréf frá aðstoðarmanni en ljóst að það er verið að vísa í eitthvað langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra, ef hann hefur margumræddar leyniskýrslur undir höndum, hvort honum finnist ekki tilefni til að afhenda þær viðeigandi þingnefnd til skoðunar og umfjöllunar. Það eru þrjár þingnefndir sem koma til greina en ég tel mjög brýnt að ef svona skýrslur eru til, sálgreiningar og prófílar af þingmönnum og öðrum, að þingið fái þær til þess að setja í viðeigandi ferli.