144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

afnám hafta og staða heimilanna.

[10:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Stórar yfirlýsingar um afnám hafta voru gefnar af forsætisráðherra sl. föstudag. Margt ágætt kom þar fram. Það sem mér finnst hins vegar óskiljanlegt varðandi þessar yfirlýsingar var hvers vegna forsætisráðherra vill búa til ágreining um þetta mál því að við í pólitíkinni höfum að mestu verið samferða í þessu á þessu kjörtímabili. Í dag deilum við til dæmis ekki um það hvort það hafi verið rétt af okkur jafnaðarmönnum og vinstri grænum að setja þrotabúin undir höftin þó að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafi ekki treyst sér til að styðja það árið 2012. Og ekki er annað að sjá en að sú vinna sem nú er í gangi byggi á þeirri vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili í málinu.

Við erum loksins komin um borð í sama bát og orðin sammála um að ganga eins langt og mögulegt er til að verja íslenska hagsmuni. Við jafnaðarmenn viljum vinna með ríkisstjórninni í þessu máli svo vel megi fara. Við þurfum bara að fá upplýsingar, enda þarf þingið að ná fljótt og vel saman um málið til að þetta allt saman gangi upp að lokum.

Einn mikilvægur þáttur þessa máls er að verja heimilin fyrir áhrifum af því að gengið falli við afnám hafta. Varað hefur verið við því að verðbólgan geti flogið hátt í kjölfar afnáms hafta með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir heimilin í landinu, lán þeirra og allt verðlag, t.d. á nauðsynjum.

Hér hefur komið fram í umræðum að uppi séu harðar kjaradeilur á vinnumarkaði. Það hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni hér í þinginu þó að við mættum ræða það meira en gert hefur verið hingað til. Það skiptir máli að þeir stóru hópar sem þessi ríkisstjórn hefur hingað til skilið eftir fái skýr skilaboð um að þeir verði varðir í þessum aðgerðum.

Virðulegi forseti. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé verið að undirbúa aðgerðir til að verja heimilin við afnám hafta. Kemur til dæmis til greina að einn liður í slíkum aðgerðum væri að taka vísitöluna úr sambandi þar sem ekki eru nein áform uppi um að afnema verðtrygginguna á þessu kjörtímabili, hvað þá afturvirkt?