144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

afnám hafta og staða heimilanna.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er kjarninn, það er grunnurinn að allri vinnunni við haftalosunina að eyða áhættunni sem fylgir slitabúunum og snjóhengjunni. Það er kjarnaatriðið. Þess vegna hefur þetta tekið þennan tíma. Það er svarið. Svarið er að við ætlum ekki að fara í neitt haftaafnám sem leiðir til þess að það skapist hætta á falli á gengi krónunnar. Það er svarið. Þar fyrir utan liggur svarið í þeim efnahagslegu aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur þegar gripið til, t.d. með þeirri langtímaáætlun í ríkisfjármálum sem nú liggur frammi á þinginu. Við erum búin að ná stöðugleika, alvöruviðspyrnu í fjármálum ríkisins og skapa þannig kjöraðstæður til að losa um höftin, losa um ytri áhættuþættina.

Svarið sem hv. þingmaður vísaði síðan til að síðasta ríkisstjórn hefði verið með var auðvitað ekkert svar. Hvað ætlaði Samfylkingin að gera eftir að þjóðin hefði fellt samning við Evrópusambandið? Þá var bara ekkert svar. Þá átti þetta að vera þjóðinni að kenna. (Gripið fram í.) Vinstri grænir voru allan tímann í ríkisstjórnarsamstarfinu (Gripið fram í.) á þeim grundvelli að þetta væri hægt með krónunni sem var (Gripið fram í.) rétt hjá vinstri grænum. Það var rétt hjá vinstri grænum að þetta er hægt með íslensku krónunni. Það er rétt hjá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og öðrum þeim (Forseti hringir.) flokkum hér sem eru tilbúnir að styðja þá leið sem við erum að vinna að.

Nú er bara spurningin: (Forseti hringir.) Telur Samfylkingin að þetta sé hægt með íslensku krónunni, eða viljið þið hafa höftin þangað til við höfum gengið í Evrópusambandið — sem verður reyndar aldrei? (VigH: Rétt.)