144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

uppgjör þrotabúa föllnu bankanna.

[10:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því ef loks er von á annaðhvort samningum eða lagasetningu um uppgjör þrotabúanna. Það er stærsta efnahagslega hagsmunamál íslensku þjóðarinnar og vonum seinna að við sjáum þær tillögur hér í þinginu og mikilvægt að vel sé til þeirra vandað. Við erum öll sammála um að í þeim samningum eða í þeirri skattlagningu þarf að skapast hundruð milljarða svigrúm fyrir íslenska þjóðarbúið.

Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra um ráðstöfun á því svigrúmi. Mig minnir að það hafi verið yfirlýst af hálfu forsætisráðherra að nýta ætti það svigrúm í þágu heimilanna. Nú heyrist mér að taka eigi þá fjármuni sem nást í samningum við þrotabúin, eða með því að skattleggja þau ef þau vilja ekki semja, og leggja inn á reikning í Seðlabankanum. Það er dálítið annað að leggja þá inn á reikning í Seðlabankanum og nota þá ekki til annars en koma í veg fyrir aukningu á peningamagni í umferð eða nota þá í þágu heimilanna. Það er alveg ljóst, meðal annars vegna þeirrar erfiðu stöðu sem er í kjaramálunum, að veruleg þörf er á fjármunum til kjarabóta. Enn hygg ég að forsætisráðherra þyki ekki nægilega að gert í skuldamálum heimilanna og á fjölmörgum sviðum velferðarþjónustunnar skortir fjármuni sárlega.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Á að nota það svigrúm sem okkur tekst að skapa við uppgjör þrotabúanna til að leggja fjármuni inn í Seðlabankann til að koma í veg fyrir að peningamagn í umferð aukist? Eða á að nota svigrúmið í þágu heimilanna eins og mig minnir að hann hafi talað um fyrir kosningar?