144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

uppgjör þrotabúa föllnu bankanna.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það eru einmitt sérstakir hagsmunir heimilanna í landinu, fólksins, almennings á Íslandi, að peningamagn í umferð aukist ekki um of og verðbólga fari ekki úr böndunum. Með því verja menn kjör fólks, með því er komið í veg fyrir að verðtryggð lán hækki, með því er hægt að halda áfram að auka kaupmáttinn og þannig mætti lengi telja. Það er því sannarlega ekki hægt að taka undir það að það séu á einhvern hátt andstæður að koma í veg fyrir að peningamagn í umferð aukist og verðbólga haldist lág og að verja stöðu heimilanna. Þetta fer algjörlega saman og er raunar sami hluturinn.

Virðulegur forseti. Það er líka mikilvægt að hafa hugfast að möguleikar ríkisins á því að veita alla þá þjónustu sem þarf að veita, og borgararnir gera eðlilega kröfu um, ráðast af því að hér takist að varðveita efnahagslegan stöðugleika og staða ríkissjóðs leyfi það að við höldum uppi þeirri heilbrigðisþjónustu sem við viljum sjá á Íslandi, að við ráðumst í þær samgöngubætur sem nauðsynlegar eru, að hægt sé að tryggja gæðamenntun hér á landi o.s.frv. Allt helst þetta í hendur og allt er þetta til þess að tryggja stöðu almennings, stöðu heimilanna í landinu.