144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

uppgjör þrotabúa föllnu bankanna.

[11:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í þættinum Forystusætið þann 10. apríl 2013 sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að hann ábyrgðist að svigrúmið yrði notað fyrir heimilin í landinu. Mér finnst að þetta sé nú kannski ekki alveg fullnægjandi útskýring á því hvernig efna á þá yfirlýsingu. Látum vera.

Ég vil hins vegar spyrja um hitt sem er mikils um vert fyrir heimilin á þessu stigi málsins, það eru áhyggjur manna af því að verðbólguskot verði í tengslum við þessar aðgerðir, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir ræddi hér við hæstv. fjármálaráðherra áðan, og hvort það sé virkilega ætlunin að láta verðtrygginguna vera áfram í gildi við afnám hafta. Ég spyr hvort við séum ekki sammála um að það hafi verið mistök eftir hrunið að taka verðtryggingu lána ekki úr sambandi og hvort það sé ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir því að fara í þetta ferli, af hálfu hæstv. forsætisráðherra, að verðtryggingin sé fryst (Forseti hringir.) eða tekin úr sambandi á meðan þessi mikla áhætta er tekin í efnahagsmálum þjóðarinnar til að tryggja heimilin í landinu.