144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja það að koma makrílsins á Íslandsmið hafi haft mjög jákvæð áhrif, að það hafi verið eins og ákveðinn lottóvinningur fyrir okkur, björgunarhringur á erfiðum tímum þegar þessi verðmæti fiskur hóf að ganga af svo miklum krafti í lögsögu okkar og við hófum að nýta hann fyrir nokkrum árum.

Árið 2010 gerðu menn sér grein fyrir því að það varð að ná böndum utan um þessar veiðar. Þá var farið í það að kvótasetja veiðarnar án þess að við værum með samning við aðrar þjóðir um þennan deilistofn. Það er í raun nokkuð sérstakt að hlusta á þær ræður sem fluttar voru í gær af hálfu ákveðinna hv. þingmanna þar sem verið var að gagnrýna mjög þá gjaldtökuleið sem fyrirhuguð er og þá leið sem fara á núna við festingu aflaheimilda í makríl.

Það var á þeim tíma sem við höfðum tækifæri til þess að fara aðrar leiðir. Ég var spurður að því á þeim tíma af fjölmiðlamönnum hvað ég teldi að ætti að gera. Ég sagði að það væri augljóslega tækifæri til þess að fara aðrar leiðir þar sem um væri að ræða nýjan stofn þar sem veiðireynsla væri ekki fyrir hendi. En ákveðið var að gera það með þeim hætti sem gert var og án nokkurrar gjaldtöku. Í þeirri umræðu allri talaði þáverandi ráðherra um að fram kæmi sérstök löggjöf um makrílveiðarnar, en hún leit aldrei dagsins ljós og hún hefði auðvitað þurft að vera komin fram ef menn hefðu ætlað að fara í málið með öðrum hætti.

Nú er það gagnrýnt að farið skuli að gildandi lögum, og má rifja það upp að það var kannski ekki svo mikil virðing borin fyrir lögum og rétti á síðasta kjörtímabili. Rifja má upp ummæli hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, sem dæmd var fyrir brot á lögum, að það skipti bara ekki máli, markmið hennar væru önnur, hafin yfir lög og rétt. Og þannig talaði fólk hér í gær, að það væri bara hafið yfir lög og rétt og við gætum gert þetta með einhverjum allt öðrum hætti. (SJS: Hvað með lög um rammaáætlun?) Ég er ekki að ræða hér um rammaáætlun. (Gripið fram í.) Ég get rætt við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon hvenær sem er. Ég get rætt við hann hvenær sem er um lög um rammaáætlun og hvort farið sé gegn þeim með þeim tillögum meiri hlutans. Við munum hafa nægan tíma til þess á vordögum í þinginu. (SJS: Það á ekki að níða fjarstaddan fyrrverandi ráðherra niður.) Þetta eru bara staðreyndir sem ég er að tala um. (SJS: Þetta eru engar staðreyndir.) Var dómur í Hæstarétti ekki staðreynd? Hér er greinilega ákveðin viðkvæmni í gangi og ég skil það, (Gripið fram í.) ekki síst í ljósi þess hvernig talað var í gær.

Auðvitað er verið að fara að lögum og það staðfestist með niðurstöðu umboðsmanns Alþingis sem birtist okkur á síðasta ári og nú hefur verið höfðað mál á grundvelli þeirrar niðurstöðu gagnvart ríkinu. Við eigum eftir að sjá lyktir þess. En okkur er auðvitað ákveðinn vandi á höndum og ég tel að í þessu frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra sé verið að reyna að nálgast ásættanlega lausn um skiptingu aflahlutdeilda á milli einstakra skipa og útgerðarflokka. Verið er að reyna að feta leið sem sátt gæti orðið um.

Miklar fjárfestingar fylgja þessum veiðum og vinnslu þessara afurða eins og öðru í sjávarútvegi. Það eru fjárfestingar í vinnslu og í skipum. Auðvitað eru þær fjárfestingar gerðar á grundvelli þess að farið verði að gildandi lögum. Uppsjávarfyrirtækin hafa fjárfest mjög mikið í vinnslum sem byggja meðal annars á vinnslu þessara afurða. Má þar ekki síst nefna Norðausturland og Austurland og reyndar víðar. Við sjáum að í smábátakerfinu, krókaaflamarkskerfinu, hafa orðið miklar fjárfestingar hjá þeim sem þar eru, fjárfestingar upp á kannski 10 millj. kr. plús á hvern bát, og eru þeir orðnir nokkuð margir sem útbúnir eru til makrílveiða. Það er gert í trausti þess að farið verði að lögum.

Óvissa letur til fjárfestinga og þar með verðmætasköpunar. Okkur hefur tekist vel í því að skapa grunn undir öfluga verðmætasköpun með makríl og skapa skilyrði til fjárfestinga, en allt er það gert í því trausti að stjórnvöld standi við sitt, standi við þá lögfestingu sem Alþingi hefur sjálft staðið að.

Í frumvarpinu er reiknað með að úthlutunin sé til sex ára í senn. Það er auðvitað mikil óvissa um þennan stofn og við getum orðað það þannig að þar sé ekki á vísan að róa. Þróunin hefur verið tiltölulega hröð en við búum við þá óvissu að horfið getur til verri vegar, það vitum við ekkert um. Allar þær fjárfestingar, sem hugsaðar eru til þess að hámarka verðmætasköpunina eru hugsaðar til lengri tíma. Það er mikil fjárfesting fyrir smábátasjómann og smábátaútgerð að fara í fjárfestingu upp á kannski 10–12 millj. kr., það er heilmikil fjárfesting, að sama skapi og það er mikil fjárfesting fyrir stærri fyrirtæki að fara í milljarða fjárfestingu, skip upp á kannski 4 milljarða kr., sem byggist að hluta til einmitt á veiðum úr þessum stofni. Það má deila um hvort sex ár séu nægilega löng framtíðarsýn í því efni. Almennt talið held ég að svo sé ekki. Ég held að menn telji almennt að það þurfi að vera til lengri tíma. Horft var til miklu lengri tíma gagnvart öðrum nytjastofnum okkar í svokallaðri samningaleið eða þeirri leið sem kynnt var í frumvarpi sjávarútvegsráðherra á sínum tíma, 2013 held ég að það hafi verið, og að því leyti var viðurkennt að í starfsumhverfi þeirra sem ákveða að fjárfesta í þessari grein þurfi fyrirsjáanleikinn að vera nokkuð ríflegur.

Rætt var svolítið um gjaldtökuna. Hér komu hv. þingmenn upp í gær sem fullyrtu að hér væri enn eina ferðina verið að fara í svokallaðan gjafakvóta, og nefndar fjárhæðir sem gefa ætti einhverjum völdum aðilum upp á allt að 150 milljörðum, 150 þúsund millj. kr. Ég tek undir með hæstv. sjávarútvegsráðherra þegar hann hvetur fólk til þess að rökstyðja slíkar tölur, til koma fram með þá útreikningana sem sýna fram á að slík gjaldtaka sé með einhverjum raunhæfum hætti. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á okkur alþingismönnum þegar við fjöllum um meginstoðir íslensks atvinnulífs og það er alveg lágmarksskylda sem á okkur hvílir varðandi það að halla ekki réttu máli, að halda okkur við staðreyndir máls. Og ef við komum fram með svo stórefldar yfirlýsingar gerum við það með rökstuddum hætti, það verður þá að vera eitthvað á bak við það annað en getgátur og almenn umræða sem ekki hefur skírskotun í faglega úttekt.

Verið er að leggja það til að fyrir þessa úthlutun verði greitt sérstakt aukagjald sem nemi 10 kr. á kílóið. Það mun skila ríkissjóði á því tímabili sem hér er undir um 9 milljörðum kr. miðað við núverandi aflaheimildir. Það eru miklir peningar, sérstaklega ef við skoðum það nú í samhengi við verðmætið upp úr sjó, sem við getum kannski séð hvernig er hjá krókaflamarkskerfinu, smábátunum, en forsvarsmenn þeirra hafa haldið því fram að þeir veiði verðmætustu afurðina í makríl, að þeir séu með ferskasta hráefnið og verðmætustu afurðina. Þeir fengu í fyrra í kringum 70 kr á kílóið, þ.e. að þetta gjald plús veiðigjald geri um 18 kr. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem fram komu í gær um að sennilega sé ekki hægt að gera út í því kerfi miðað við þá gjaldtöku. Það borgar sig ekki fyrir þá sjómenn að fara á sjó, svo einfalt er nú málið.

Við verðum auðvitað að haga allri gjaldtöku með tilliti til þess að eitthvert vit sé í henni og eitthvert vit sé í því að nýta náttúruauðlindina. Það er því eitthvað sem við munum þurfa að skoða, við munum þurfa að fara vel í gegnum það og sérstaklega í ljósi þess að aðstæður í dag varðandi makrílinn eru alls ekki þær sömu og þær voru í fyrra. Stærsti markaður okkar fyrir þessar afurðir hefur verið í Rússlandi. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að vel ríflega helmingur allra afurða sé seldur til Rússlands. Í dag er staðan í Rússlandi eins og við þekkjum. Nokkur fyrirtæki, stórir kaupendur, hafa þegar orðið gjaldþrota. Íslensk fyrirtæki eru þegar búin að afskrifa stórar fjárhæðir vegna viðskipta þeirra með makríl á síðasta ári. Kaupendum hefur með öðrum orðum fækkað mjög mikið og menn sem þekkja vel til í þessu telja það algjörlega fyrirsjáanlegt að við munum ekki ná sama afurðaverði fyrir makríl og við gerðum í fyrra, því miður.

Markaður Norðmanna, samkeppnisaðila okkar í þessu máli, er meira austur í Asíu. Þeir hafa veitt makrílinn á öðrum tíma en við, hann er verðmætari þannig, þannig vilja þeir fá hann í Asíu. Það er því ekki svo auðvelt að vinna nýja markaði að mati þeirra sem um sýsla.

Ég hvet okkur því bara til þess að hafa umræðuna málefnalega. Það eru miklir hagsmunir undir og við eigum að hafa það sem sameiginlegt mál okkar að ræða þessa hluti með málefnalegum hætti, þó að við getum haft mismunandi skoðanir, og reyna að komast að niðurstöðu sem verður hagfelld fyrir greinina og samfélagið allt.