144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Réttlátari og hagkvæmari úthlutun með því að selja aflaheimildirnar eða bjóða þær upp og á sama tíma að hámarka arðinn fyrir þjóðina plús greinina? Það eru allt saman mjög háleit markmið og ágæt. En það er ekki eins og þessar leiðir hafi ekki verið reyndar. Þegar kallað er eftir markaðslausnum í sjávarútvegi vil ég segja að íslenskur sjávarútvegur hefur einmitt verið drifinn á markaðslausnum í gegnum tíðina. Það er þess vegna sem við rekum svo hagkvæman sjávarútveg, þ.e. af því að hann er markaðsdrifinn.

Sjávarútvegur í Noregi er framleiðsludrifinn. Það er grundvallarmunurinn á rekstri sjávarútvegs í Noregi og á Íslandi að hann er framleiðsludrifinn í Noregi en markaðsdrifinn á Íslandi. Þannig er opinn markaður með allar aflaheimildir í dag. Ég og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson getum ákveðið að fara í útgerð á morgun, við getum keypt okkur aflaheimildir og við getum keypt okkur bát og farið af stað. Þetta er allt markaðsdrifið. Það er bara þannig.

Síðan erum við með ákveðið félagslegt kerfi sem er til þess fallið og hugsað til að bregðast við sértækum aðstæðum, stuðla að nýliðun og byggja greinina upp á öðrum vettvangi. Þar erum við ekki með markaðsforsendur eða hagkvæmni að leiðarljósi, þar erum við með önnur markmið, í strandveiðum, í byggðakvóta, í línuívilnun fyrir þá sem vilja beita í landi. Ég og Guðmundur Steingrímsson getum ekki keypt okkur stóra útgerð, við kaupum okkur lítinn bát, við ákveðum að beita sjálfir í landi og róa svo með balana sem við beittum og landa og fáum 20% ívilnun fyrir það. Það eru alls konar svona hlutir sem eru hugsaðir inn í kerfið, (Forseti hringir.) en í grundvallaratriðum er íslenskur sjávarútvegur markaðsdrifinn, (Forseti hringir.) sem er ólíkt því sem hann er í mörgum öðrum löndum.