144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson hvort það sé ekki örugglega rétt skilið hjá mér að verið sé að loka kerfinu varðandi makríl. Þeir sem hafa veiðireynslu fá úthlutun og þar með er búið að loka kerfinu. Eigi einhver að koma inn í það þarf hann að kaupa réttinn af þeim sem þar fengu úthlutun. Og þar myndast verðmæti.

Þegar nefndar voru tölur hér í gær voru þær kannski reiknaðar út frá því að þorskígildi makríls er þriðjungur af þorski. Hvert er framtíðarmarkmiðið í þorskinum í dag? 2.000–2.200 kr. Hvert er leiguframsalið í þorski? 180–220 kr.

Við erum hér með frumvarp sem færir afgreiðsluna á þessum heimildum yfir til útgerðarinnar til verðmyndunar og til ráðstöfunar. Er það ekki rétt skilið, hv. þingmaður? Það þýðir þá líka að sá sem fær úthlutað kvóta getur farið út úr kerfinu samstundis og selt hann og farið með peninginn út úr greininni. Það hefur verið stærsti ásteytingarsteinninn í kvótakerfinu frá upphafi. Það hefur ekki endilega með framsalið að gera, þó að það væri bara leiguframsalið sem væri stoppað.

Þarna höfðum við tækifæri. Af því að verið er að setja ný lög um makrílinn eru menn ekki svo bundnir af þeim eldri, enda komumst við upp með það á sínum tíma að hafa ekki framsal á makrílnum til þessa. Þá spyr ég eins og sá sem hér talaði á undan: Af hverju grípum við ekki tækifærið núna og gerum tilraunir með kvótaþingið eða tilboðsmarkað til þess að opna fyrir greinina? Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því, af því að hann nefndi hér byggðaúrræði og að veitt er á línu og handfæri, að verið sé að loka á magnaukningu þar með þessu frumvarpi (Forseti hringir.) í tengslum við línu og handfæri?