144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur að það sé verið að loka á magnaukningu í línu og handfærum. Það auðvitað fylgir bara hlutfalli eins og annað í þessu.

Nú erum við að setja ný lög um þennan stofn. Við erum að loka kerfinu, já, við erum að fara að lögum. Hv. þingmaður orðaði þetta ágætlega: Við komumst upp með það á sínum tíma að gera þetta með þeim hætti sem gert var á síðasta kjörtímabili 2010 og eftir það, við komumst upp með það.

Já, sú ríkisstjórn komst upp með það en með þeim afleiðingum sem blasa við okkur. Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að með því hafi verið brotin lög. Það er kannski algjört aukaatriði í hugum þeirra manna sem þá voru við stjórnvölinn og að það hefur verið höfðuð málsókn á hendur ríkinu á grundvelli þess.

Við erum að fara að lögum. Lögin kveða alveg skýrt á um það og þeim var ekki breytt á síðasta kjörtímabili hvað þetta varðar. Það er þó verið að setja lög í dag sem eru algjörlega nýtt kerfi og kannski til þess einmitt að bregðast við þessu sem hefur verið mörgum þyrnir í augum og okkur öllum get ég fullyrt, hvernig það fór þegar framsalið var óheft sett á á sínum tíma og menn seldu sig út úr greininni jafnvel í tiltölulega löskuðum fyrirtækjum og gengu feitir frá borði.

Nú er verið að takmarka þennan tíma í sex ár. Fyrirsjáanleikinn með makríl er allt annar en þeirra stofna sem hér hafa verið í gegnum aldirnar. Það er verið að setja þetta í sex ár, það er verið að setja tiltölulega ríflegt gjald sem aukagjaldtöku í þessi sex ár, þannig að það er alveg ljóst að þetta hefur auðvitað gríðarleg áhrif á eitthvert markaðsvirði framtíðarinnar. Það er verið að reyna að girða fyrir þetta með einhverjum hætti.