144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:33]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég treysti því að hv. formaður atvinnuveganefndar reikni út virði þess sem verið er að færa til þeirra sem fá kvóta á makríl. Talað er um að verið sé að setja lög um að fara að lögum, það bindi þessi lög að verið sé að fara að lögum. En samtímis á hér þó að miða við veiðireynslu allt frá þremur árum upp í sex ár. Það er ekki í samræmi við gömlu lögin.

Það eru ótal dæmi í sambandi við síldina, í sambandi við rækjuna o.fl. þar sem menn hafa verið með sérlög um ákveðna stofna. Ég treysti því að við fáum líka umræðu um af hverju við megum ekki leyfa útgerðinni sjálfri að meta gjaldið fyrir það að veiða fisk með því að vera með það allt á kvótaþingi eða tilboðsmarkaði.

Við deilum því sjónarmiði, ég og hv. þm. Jón Gunnarsson, að við viljum öflugan sjávarútveg, við viljum eyða óvissu í greininni og við viljum horfa til langrar framtíðar. Það og að ná sátt meðal þjóðarinnar (Forseti hringir.) ekki síður en við útgerðarmenn, krefst þess að menn taki þá tillit til þeirra atriða sem verið hefur (Forseti hringir.) grundvallarágreiningur um og taki á þeim þáttum. (Forseti hringir.) Það er því miður ekki gert í þessu frumvarpi.