144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég byrja fyrst á að svara því hvernig þetta hlutfall er ákveðið. Ég tel að það liggi í augum uppi. Þetta er hærra hlutfall af makríl en smábátarnir hafa nokkru sinni veitt. Á síðasta sumri var þeim úthlutað eitthvað í kringum 4%, ef ég man rétt, eða kannski rúmlega 4%, ef það náði því, í kringum 4%. Veiðin var um 4,7% af heildarveiðinni. Nú er verið að úthluta þeim heldur hærri skammti og þar með telja menn sig kannski ná utan um þörf þessa markaðar. Það er líka ákveðið svigrúm í þessum félagslegu pottum okkar án þess að nokkur ákvörðun hafi verið tekin um hvernig það skuli nýtt, en þar eru ákveðnar aflaheimildir sem nema nokkrum þúsundum tonna af makríl ásamt öðrum þeim tegundum sem fara í pottakerfið. Það væri þá hægt að bregðast við því með þessari grein.

Varðandi það hvort ég sé á móti einhverjum ákvæðum um gjaldtökuna í þeim frumvörpum sem við ræðum hér þá hef ég ekki forsendur til þess að setja mig upp á móti neinu í því efni. En ég nefni hér sérstaklega smábátana og það sem mér finnst blasa við og tek þar reyndar undir með hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hafði orð á því í umræðunni í gær að hann óttaðist að sú gjaldtaka gæti verið of há. Það þarf hin faglega umfjöllun á vettvangi þingsins og hv. atvinnuveganefndar að leiða í ljós og að við gætum þess að eitthvert samræmi sé milli hóflegrar gjaldtöku og þess að greinin og hin mismunandi útgerðarform geti áfram dafnað, því að fjölbreytileikinn er og verður vonandi áfram styrkur (Forseti hringir.) íslensks sjávarútvegs. Hann er lykillinn að því hvernig við bregðumst við mismunandi aðstæðum (Forseti hringir.) á mörkuðum og það skilur okkur (Forseti hringir.) frá öðrum þjóðum.