144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[11:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að þeir hafa hærra hlutfall af þorskafla og bolfiskafla en þetta, það hefur þróast þannig í gegnum tíðina. Kem ég þá að einu atriði sem er ágætt til upprifjunar og áminningar í allri umræðunni um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið og það sem meðal annars ég og samflokksmenn mínir höfum setið undir, þ.e. að við séum alveg sérstakir hagsmunaðailar stórútgerðanna í landinu þegar kemur að fiskveiðistjórnarkerfinu, hagsmunagæsluaðilar LÍÚ, eins og fyrrverandi forsætisráðherra sagði gjarnan í ræðustól Alþingis. En það eru nákvæmlega þeir flokkar sem hafa í gegnum tíðina verið að færa mjög miklar aflaheimildir frá stærri fyrirtækjum í smábátakerfið. Í grundvallaratriðum held ég að ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson séum nú meira og minna sammála um þetta mál, þ.e. að lögmál markaðarins eigi að ráða. Við þurfum félagslegt kerfi til þess að sníða (Forseti hringir.) ákveðna vankanta af lögmálum markaðarins, ef við getum orðað það þannig, í byggðalegu og afkomulegu tilliti og að reyna að tryggja að atvinna sé ekki flutt í burtu.