144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Björt Ólafsdóttir hefur að hluta til svarað þeim spurningum sem ég ætlaði til hennar að varpa. Mín afstaða í þessu máli virkar svolítið „skitsófren“, en það er samt ekki þannig að það séu óyfirstíganlegar innri þverstæður.

Ég er þeirrar skoðunar almennt gagnvart kvótakerfinu að nýta eigi lögmál markaðarins eins og hægt er til þess að hámarka afrakstur og tryggja sem besta útkomu. Samt sem áður þekki ég skuggahliðar kerfisins, við þekkjum þær öll sem hér erum. Þær felast í því að kvóti er keyptur í burtu og byggðarlög eru skilin eftir í sárum, jafnvel í rúst Það er hægt að nefna tiltölulega nýleg dæmi um það.

Þess vegna hef ég alltaf sagt að á sama tíma og ég vil beita leikreglum markaðarins til þess að ná sem mestum arði út úr greininni fyrir þjóðina vil ég líka að tekið sé til hliðar ákveðið magn sem tryggir að við getum skapað störf og stutt atvinnulegan grundvöll byggðalega og við gerum það í gegnum byggðakvóta, gegnum strandveiðar og línuívilnun og ýmislegt fleira. Ég er þeirrar skoðunar að gagnvart makrílkvótanum eigi að hafa þá nálgun líka og hún er ekkert ósvipuð því sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir var að segja, þó að ég dragi í efa að hún sé jafn markaðssinnuð og ég. Það sem gleður mig er alla vega að það virðist vera skilningur hjá Bjartri framtíð og fleirum gagnvart því að litlir bátar eru farnir að koma þarna inn og þeir hafa fjárfest töluvert í þessu og gera það væntanlega vegna þess að þeir sjá hagnaðarvon. Þó að kannski hafi ekki gengið svo vel á síðasta ári gekk mjög vel á árunum þar á undan.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Telur hún ekki rétt að hlutfallið sem smábátarnir eiga að fá, sem eru 5,3% í frumvarpinu, verði hækkað? Og er eitthvað á móti því að varið sé til þeirra sama hlutfalli (Forseti hringir.) og þeir fá af þorskaflanum?