144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:13]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Hvað varðar það sem hv. þingmaður sagði um byggðakvóta og leiðir til að festa byggðir í sessi og mikilvægi þess er ég sammála honum um mikilvægi þess síðarnefnda, að festa byggðir í sessi og styrkja þær.

Hins vegar verð ég að segja að ég er efasemdarmanneskja, af því að við horfum á það sem sagan hefur kennt okkur um byggðakvóta og hvort hann sé besta lausnin til þess. Því miður hefur hann ekki reynst neitt voðalega vel. Það er samt hægt að kaupa kvóta í burtu og hefur verið hægt með byggðakvóta. Ég held við ættum að reyna að víkka sjóndeildarhringinn okkar aðeins þegar kemur að byggðarlögum og því að þau þurfa ekki endilega að treysta á það sem kemur upp úr sjónum, þau eiga að fá byggðastuðning og kannski í formi byggðakvóta ef þau kjósa svo. Mér finnst að þau ættu að fá frjálsari hendur til þess jafnvel að selja byggðakvótann og hafa einhverja aðra byggðastefnu en að veiða fisk úr sjó. Mér finnst að heimamenn eigi að ráða því. Mér finnst mjög skrýtið að við á Alþingi eða Byggðastofnun ákveðum það, það hefur ekki gengið neitt svakalega vel til hingað til. Þetta hefur verið brothætt kerfi.

Varðandi smábátahlutfallið í þessu frumvarpi verð ég að segja ég hef ekki skoðað skiptinguna á því mjög „grundigt“. Auðvitað bregður manni við að sjá að 90% eigi að fara til stóru útgerðanna sem hafa í krafti stærðar sinnar aflað sér mestu veiðireynslunnar. Ég er „komplett“ á móti því að kvótasetja þetta svona.