144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:18]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi frá sjávarútvegsráðherra um hlutdeildarsetningu á makríl þó að ég sé ekki sáttur við það að öllu leyti. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að makríllinn sé hlutdeildarsettur þar sem í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segir að vinna skuli áfram eftir aflamarkskerfi auk þess sem landslög kveða einfaldlega á um það. Aflamarkskerfið hefur margsannað sig að vera markvissasta kerfið til að takmarka sókn í ákveðna stofna, koma í veg fyrir offjárfestingu og hámarka afrakstur bæði þjóðar og fyrirtækja af auðlindinni.

Í frumvarpinu er talað um mikilvægi þess að tryggja fyrirsjáanleika í greininni, en sex ár þykir ekki langur tími í sjávarútvegi. Ég held að engum sem starfar í sjávarútveginum í dag finnist sex ár mikill fyrirsjáanleiki og eru það því vonbrigði að hann skuli ekki vera meiri, auk þess sem það er í raun mikil kerfisbreyting að úthluta til sex ára. Og ég spyr: Af hverju sex ára, af hverju ekki fjögurra, átta eða tíu, eða 15 eða 20? Einnig velti ég fyrir mér hvort 10 kr. aukagjald á makrílinn sé söluverð eða leiguverð. Er þetta kannski kaupleiga? Ég tel það mjög íþyngjandi fyrir þau skip sem aðeins veiða. Það segir sig sjálft að ef markaðsverð er 50–90 kr. eru 16–18 kr. ansi hátt hlutfall af heildarverði.

Ég geri mér grein fyrir því að það er hægara að réttlæta þessi háu gjöld á þá aðila sem bæði eru í veiðum og vinnslu, en það er engin sanngirni í því að leggja vinnsluskatt á þá fáu einyrkja sem eftir eru í greininni. Það var í raun mikið happ að makríllinn skyldi yfir höfuð leita vestur um, inn í okkar landhelgi og koma okkur til hjálpar á ögurstundu. Menn gleyma því hins vegar að það er ekki nóg að makríllinn syndi inn í íslenska landhelgi ef engir eru sjómenn til að veiða hann og ekki réttu skipin og réttur búnaður til að veiða og vinna. Auðlindin verður ekki að verðmætum af sjálfu sér. Það er auðvelt að sitja hér, reikna út áætlaðan gróða og skattleggja þannig að engir sjái sér hag í því að þefa uppi matarholurnar og gera úr þeim verðmæti.

Það kom sér að minnsta kosti vel fyrir okkur hér að þegar makríllinn synti til okkar áttum við öflugan sjávarútveg, við áttum öflug skip, jafnvel þótt sjávarútvegurinn hafi verið skuldsettur, þessi öflugu skip sem náðu tökum á að veiða og svo vinna hann og gera úr honum þau verðmæti sem margir hér býsnast yfir og trúa að hafi komið af himnum ofan. Það var ekki sjálfgefið að makríllinn yrði að þessum verðmætum og til guðs lukku vorum við okkar eigin herrar en þurftum ekki að horfa upp á skip Evrópusambandsins veiða makrílinn fyrir framan nefið á okkur en það hefðum við þurft að gera ef við hefðum verið gengin í Evrópusambandið.

Varðandi hlutdeildarsetningu á smábátaflotann get ég tekið undir með smábátamönnum og er ekki sannfærður um að það henti að hlutdeildarsetja handfæraveiðarnar. Það eru kostir við það, því er ekki að neita, rétt eins og hjá þeim stóru. Þá hættir offjárfestingin sem óneitanlega hefur verið síðustu ár ef miðað er við að 5% af heildinni eigi að veiðast á þennan flota. Eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu er afkastageta smábátanna gríðarleg og veiddust 300–400 tonn á síðustu dögum vertíðarinnar.

Ég hef áhyggjur af því að jafnvel bara þessi 5% náist ekki. Ég óttast það að of fáir smábátar fari á þessar veiðar vegna lítils kvóta, lítillar úthlutunar á hvern og einn, og að þeir sem reyna bíði með að byrja þar til eitthvað fréttist. Hátt viðbótargjald upp á 10 kr. er ekki hvetjandi og mun síst stuðla að hagræðingu og kvótaskiptum á milli manna. Makríllinn hefur auk þess sýnt að hann er óútreiknanlegur. Þó að hann hafi veiðst mest fyrir sunnan og vestan land síðustu ár gæti hann alveg átt það til að vera fyrir austan og norðan á næsta ári, þ.e. ef hann yfirleitt kemur. Smábátarnir eru yfirleitt staðbundnari en uppsjávarflotinn, en uppsjávarflotinn, sá öflugi floti sem hefur skapað þessi verðmæti, veiðir á Grænlandshafi, í allri landhelgi Íslands, við Noregsstrendur og í færeysku lögsögunni. Smábátaflotinn er staðbundnari og ef makríllinn breytti göngumynstrinu væru minni líkur á að hann fyndist ef hann kæmi upp við austurströndina og norður fyrir því að engir smábátar fyrir austan eða norðan fá úthlutun að heitið geti.

Ef smábátar bíða þar að auki með að veiða hann þangað til hann verður feitari og verðmeiri, t.d. fram í september eða lengur, er meiri hætta á að slæm veður komi í veg fyrir að það takist og hann syndi hjá og þjóðin verði af verðmætum. Hægara er fyrir ráðherra að grípa inn í og láta stærri skip veiða ónýttar tegundir þegar um pott er að ræða en að færa af einstökum skipum eða bátum. Kosturinn við að hafa smábátana í ólympískum veiðum er að þá verða smábátamenn á vaktinni allt í kringum landið og meiri líkur á að hann finnist á grunnslóðinni og náist komi hann á annað borð.

Það er ósanngirni í því að bátar fyrir sunnan, þar sem margir nytjastofnar koma fyrst og veiðast, verði kvótasettir um það leyti sem þeirra verður vart fyrir norðan, því er ekki að neita. Ég vona að ég verði ekki sannspár og að þetta gangi nú allt upp og smábátarnir nái þessum 5%. Eins og ég sagði áðan er ég að stærstum hluta sáttur við þetta frumvarp en geri mér vonir um að það taki einhverjum breytingum hjá atvinnuveganefnd.