144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:33]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég viðurkenni ekki að ég sé að tala hérna eitthvað í kross. Ég er bara hlynntur aflamarkskerfinu. Þó að við séum í grunninn með aflamarkskerfi þýðir það ekki — við erum með 5,3% í ýmis byggðaverkefni, eins og hv. þingmaður veit. Ég sagði aldrei að mér þættu 5% lágt hlutfall. 5% eru bara það sem þessi floti hefur verið að veiða. Ég velti hins vegar upp og hef lýst efasemdum og áhyggjum af því að göngumynstrið á makríl verði öðruvísi. Ef hann veiðist ekki við strendurnar getur verið þægilegra fyrir ráðherra að láta stærri skipin veiða fyrr, áður en hann gengur út úr lögsögunni aftur. Það er bara það sem ég er að benda á.

Það er ákveðin hagræðing fyrir smábátaflotann að fara í aflamarkið, þá eru ekki þessar ólympísku veiðar. Þá eru ekki 100 skip á miðunum á sama bletti í einu og 100 skip að landa fullfermi í einu, allar vinnslur fullar og hvergi hægt að losna við, verðfall og annað. Það eru kostir og gallar við bæði kerfin. Ég þori ekki að spá því að þetta sé rothögg á greinina. Ég lýsi því bara að það eru kostir og gallar við bæði kerfin. Áhyggjurnar eru af því hvenær eigi að grípa inn í. Eða eigum við að sætta okkur við það að ef hann gengur ekki upp á grunnslóð syndi hann bara burt og við verðum af þeim verðmætum? (Forseti hringir.) Eigum við ef til vill á einhverjum tímapunkti að eftirláta hann stóru skipunum sem eiga betra með að veiða hann þegar hann er á því svæði?