144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:40]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann spyr hvort ég hafi áhyggjur eða ekki áhyggjur af því hvort smábátar muni reyna að koma af sér einhverri hlutdeild eða kvóta eða hvað við köllum þetta. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það kostar allt að 10 milljónum að útbúa bát á svona veiðar þannig að ég get ímyndað mér við fyrstu sýn að úthlutun geti verið almennt 20 og upp í 50, 60 tonn, kannski eitthvað meira, jafnvel 100 tonn, en það segir sig sjálft að menn fara ekki að veiða þótt þeir eigi jafnvel útbúnaðinn. Menn fara ekki að græja sig og skipta yfir á þennan veiðiskap ef þeir ætla að veiða 20 tonn, ef þeir fá þeim úthlutað, eða 50 tonn til að selja á 50 eða 70 kr. Það segir sig sjálft, það horfir ekki þannig með verðlagsmálin á makrílnum um þessar mundir.

Sá sem á hlutdeild og ætlar að bæta við sig með leigu eða framsali frá öðrum og veiða fisk sem hann selur á 50–80 kr. og þarf að borga 16–18 kr. í veiðigjald, ég get ekki séð að það sé hægt, að það sé grundvöllur fyrir því að borga eitthvað fyrir það. Ég hefði haldið að fyrir þennan flota með svona litla reynslu af göngumynstri á makrílnum, við vitum ekkert hvar hann kemur eða hvort hann kemur. Hann getur gosið upp fyrir norðan eða austan og bátarnir eru hérna fyrir sunnan þannig að ég hefði talið að það væri betra — en ef þetta verður alltaf eins — það er ákveðin hagkvæmni (Forseti hringir.) í hlutdeildarsetningunni. Maður veit ekki, það er svo mikil óvissa alltaf í þessum sjávarútvegi að maður veit það ekki.