144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[12:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég skil hv. þingmann þannig að hann telji miðað við stærðirnar í þessu frumvarpi að það komi svo lítið í hlut sérhvers smábáts að það einfaldlega borgi sig ekki að græja sig til veiðanna. Þar af leiðandi telur hann að það verði samþjöppun og menn flytji kvóta á milli. Það er náttúrlega ein leið til að bæta úr þessu og stækka hlutdeild hvers báts og hún er sú að láta smábátaflotann fá stærri part af heildaraflamarkinu. Það skiptir miklu máli þannig að ég tel að hv. þingmaður hafi komið með ákaflega mikilvæg rök inn í þessa umræðu og beinlínis sýnt fram á að það hlutfall makrílaflans sem frumvarpið veitir smábátaflotanum gengur ekki upp af hagkvæmnisökum.

Ef það á ekki algjörlega að ganga fram hjá smábátaflotanum verður að auka hlutfallið. Þetta finnst mér kannski það allra mikilvægasta sem hefur komið fram í þessari umræðu til þessa.