144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[13:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp hér á Alþingi. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, er lögreglu heimilt að grípa til símhlustunar og annarra sambærilegra aðgerða í þágu rannsóknar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Það er svo í höndum dómstóla hverju sinni að meta hvort þau skilyrði séu fyrir hendi og er aldrei hægt að grípa til fyrrnefndra aðgerða án undangengins dómsúrskurðar. Símhlustun lögreglu vegna rannsóknar sakamáls skerðir friðhelgi einkalífs á mjög tilfinnanlegan hátt enda felur sú aðgerð í sér að sá sem hún beinist að veit ekki af henni. Íslenskt samfélag og stjórnskipan byggir á virðingu okkar fyrir mannréttindum og öryggi borgaranna. Þess vegna er það afskaplega mikilvægt að skýr lagaskilyrði séu til beitingar rannsóknarheimilda lögreglu og skýrt og virkt eftirlit sé með framkvæmd þeirra. Heimildir til símhlustunar og annarra sambærilegra aðgerða í þágu sakamálarannsóknar á grundvelli sakamálalaga, nr. 88/2008, hafa reglulega komið til umræðu hér á þingi, bæði í formi fyrirspurna og annarrar umræðu. Ráðherra hefur á 139., 141. og 144. löggjafarþingi svarað ítarlegum fyrirspurnum þingmanna um beitingu þeirra úrræða hjá lögreglunni.

Í tíð forvera míns var réttarfarsnefnd falið að skoða ákvæði sakamálalaga, nr. 88/2008, um símhlustun og athuga hvort þörf væri á að breyta heimildum laganna. Á löggjafarþinginu árið 2011–2012 lagði þáverandi innanríkisráðherra fram frumvarp til laga um breyting á sakamálalögum með það að markmiði að skýra frekar það skilyrði fyrir beitingu heimilda laganna til símhlustana. Náði það frumvarp hins vegar ekki fram að ganga eins og við þekkjum. Vilji hefur því staðið til þess um nokkurt skeið í innanríkisráðuneytinu að endurskoða ákvæði laganna um símhlustun. Ég get fyrir mitt leyti tekið undir það og er sammála því að það þurfi að gera. Nú síðast lagði þáverandi dómsmálaráðherra, síðastliðið haust, fyrir réttarfarsnefnd að taka til endurskoðunar skilyrði símhlustunar í lögum um meðferð sakamála. Hefur réttarfarsnefnd nú unnið drög að frumvarpi til breytinga á lögunum með það að markmiði að skýra þessi ákvæði um skilyrði fyrir heimildum til símhlustana og eru þau nú til skoðunar í ráðuneytinu. Ekki hefur verið tekin endanleg afstaða til þess hvort frumvarpið fari fram í þeirri mynd sem það er í núna en það er til skoðunar í ráðuneytinu.

Það er mikilvægt í þessari umræðu að við höfum það ávallt að leiðarljósi að um alvarlegt inngrip í friðhelgi einkalífs er að ræða og því verður ákveðið jafnvægi að vera milli rannsóknarheimildanna til hagsbóta fyrir rannsókn alvarlegra sakamála og eftirlitsins sem á að vera með þeim og þess hvernig við stöndum að því að vernda mannréttindi okkar allra.

Í dag er það hlutverk ríkissaksóknara að hafa eftirlit með símhlustunum og öðrum sambærilegum rannsóknarúrræðum lögreglu. Ríkissaksóknari hefur gefið út sérstök fyrirmæli vegna eftirlits með hlustunum lögreglu árið 2012 en þar kemur fram að tilkynna skuli honum á sex mánaða fresti upplýsingar um lok hlustana, hvenær þær áttu sér stað og með hvaða hætti hlustunarþola var tilkynnt um aðgerðina.

Fyrir þinginu í dag liggur frumvarp um framtíðarskipan ákæruvaldsins sem hefur það meðal annars að markmiði að styrkja embætti ríkissaksóknara og eftirlitshlutverk hans með framkvæmd ákæruvalds og beitingu rannsóknarheimilda lögreglu við rannsókn sakamála. Með frumvarpinu er því verið að stíga ákveðið skref í átt að auknu réttaröryggi enda er grunnurinn að því skýr lagarammi og virkt eftirlit. Ég legg mjög mikla áherslu á að þetta tiltekna frumvarp, um stofnun embættis héraðssaksóknara, nái fram að ganga á þessu þingi. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir réttaröryggi í landinu að svo verði og ég veit að í allsherjar- og menntamálanefnd er það í vinnslu, bíður 2. umr., og í sambandi við þetta mál er afskaplega brýnt að við náum þeim réttarbótum sem þar er að finna.