144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[13:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og ég þakka líka hæstv. innanríkisráðherra fyrir hennar viðbrögð. Í raun er ég mjög sáttur við þær áherslur sem koma fram í máli þeirra beggja því að báðar hafa þær vísað til þess að símhlerun er skerðing á frelsi manna og friðhelgi einkalífsins og að jafnan þurfi að hafa það í huga. Báðar leggja áherslu á að um þetta verði að gilda mjög skýrar reglur, skýrar takmarkandi reglur.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég er mjög sáttur við þessar áherslur borið saman við það sem við fengum iðulega að heyra hér á síðasta kjörtímabili þegar áherslan í þessum þingsal var iðulega sú að tillögur sem fram komu frá mér sem innanríkisráðherra á þeim tíma væru of þröngar. Það voru margir þingmenn sem höfðu uppi þann málflutning að við ættum að stefna að forvirkum rannsóknum lögreglu og yrði sett á laggirnar deild sem sinnti þeim málum í anda þess sem við þekkjum á Norðurlöndunum sem búa við miklu rýmri heimildir hvað þetta snertir.

Í frumvarpi sem ég lagði fram sem innanríkisráðherra fyrir hönd þáverandi ríkisstjórnar, sem stjórnarfrumvarp á þinginu 2012–2013, sagði í greinargerð að næði frumvarpið fram að ganga yrði heimild lögreglu til að beita símhlustun og skyldum aðgerðum við rannsókn mála verulega þrengd, ekki síst fyrir (Forseti hringir.) þá sök að sú heimild yrði í öllum tilvikum að réttlætast af því að ríkir almanna- og einkahagsmunir krefðust þess. (Forseti hringir.) Ég mun koma í seinni ræðu og gera nánar grein fyrir þeim tillögum sem þá lágu fyrir þinginu.