144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[13:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þessi umræða haldi áfram og sérstaklega fagna ég þá svari hæstv. innanríkisráðherra sem gefur til kynna að það sé ríkur skilningur á því hvað sé að. En bara til að halda því til haga hversu mikið er að langar mig að fara aðeins yfir örlitla tölfræði sem mér finnst að ætti að nægja til þess að sýna fram á hversu alvarleg staðan er í raun og veru hér og hversu langt við ættum að vera frá því að tala um hluti eins og forvirkar rannsóknarheimildir, eitthvað því um líkt. Eins og áður hefur komið fram eru hlerunarbeiðnir lögreglunnar samþykktar í 99,31% tilfella. Það er í reynd í öllum tilfellum með einstaka undantekningu. Fimm beiðnum af 720 er hafnað. Það er eiginlega þannig að lögreglan biður um heimild og fær hana.

Það vekur líka áhuga minn að sjá í hvaða málum þetta er notað. Ef einhver nefnir manndráp eða mansal eða kynferðisbrot eru allir til í að hlera og gott og vel. En meiri hluti beiðna kemur til vegna fíkniefnabrota, um 65% tilfella. 65% hlerunarbeiðna eru vegna fíkniefnabrota. Vegna mansalsbrota, sem dæmi, eru það 2,64%. Vegna kynferðisbrota, 5,28%. Það er í hreinum meiri hluta, stærri meiri hluta en meiri hlutinn er hér á þinginu, þar sem þetta er notað í fíkniefnamálum. Sömuleiðis, ef maður lítur á afdrif mála, hvernig fer fyrir þessum málum, þá falla málin niður í 60% tilfella ýmist hjá ákæruvaldi eða lögreglu. Það er einungis í 40% mála sem málið heldur áfram og teljast má lögmætt. Þessi mál eru í molum hjá okkur. Við verðum að taka okkur á í þessu áður en við förum að ræða hluti eins og forvirkar rannsóknarheimildir.