144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[13:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mér fannst mjög fróðleg sundurgreiningin hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um heimildir til símhlerunar og ástæða til að fara í saumana á því. Hafa ber í huga að tölfræðin segir okkur ekki allt. 99% tilvika samþykkt gæti þýtt að einvörðungu væri beðið um heimildir á ábyrgum forsendum en ekki óábyrgum. Það gæti þýtt það. Ég tek hins vegar eftir áherslunni sem þarna er á fíkniefnarannsóknir og bendi í því sambandi líka á að við þurfum að horfa á samhengið. Iðulega er verið að rannsaka skipulega brotastarfsemi sem þá tengist hugsanlega eiturlyfjasölu og mansali eða öðrum slíkum þáttum sem við þekkjum að tengjast þessum hópum sem slíkt stunda. Við verðum að skoða þetta í samhengi.

En ég tek undir að þetta eru áhugaverðar upplýsingar sem þarf að ræða mjög vel. Við tölum um mikilvægi þess að verja hagsmuni einstaklingsins, friðhelgi einkalífsins. Við skulum ekki gleyma því að þessar heimildir snúa líka að því hinum megin frá, við erum með almenna skírskotun í lögin og síðan undanþágur frá þeim sem lúta að nálgunarbanni til dæmis eða ofsóknum á hendur fólki, jú, og skipulagðri glæpastarfsemi, allt til þess að verja fólk sem er ofsótt af glæpamönnum þannig að það eru tvær hliðar á þessum málum.

Ég lagði fram, eins og áður hefur komið fram, frumvarp um þetta efni sem mér fyndist eðlilegt að væri tekið til endurskoðunar. Ég segi fyrir mitt leyti að ég væri tilbúinn að þrengja þau skilyrði sem sett voru fram í þessu frumvarpi, að horfa til átta ára en ekki sex ára og endurskoða tilvísun í aðrar lagagreinar líka.