144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[14:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Um leið og ég þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram vil ég hér í síðari ræðu minni einfaldlega koma með tvo punkta. Sá fyrri varðar það að við verðum að gera okkur grein fyrir því að opinberir eftirlitsaðilar — þær stofnanir sem við höfum sett á fót til þess að sinna eftirliti og fara með rannsóknir, t.d. á glæpsamlegu athæfi — gera mistök. Það geta verið mistök í úrskurðum, í heimildum sem þessar rannsóknastofnanir fá. Það er þess vegna full ástæða fyrir okkur til að hafa ríkulega í huga að þessar leikreglur þurfa að vera gríðarlega skýrar og við þurfum jöfnum höndum að fara yfir þær.

Nýleg dæmi um samskipti lögregluyfirvalda, fyrrverandi innanríkisráðherra og aðstoðarmanna segja okkur að það eru ekki nógu skýrar leikreglur þegar kemur að valdmörkum o.s.frv. hjá okkur. Við þurfum að hafa þetta allt saman í huga.

Ég vil á sama tíma segja að við þurfum að vera viss um að við séum að tala sama tungumál. Ég er ekki endilega viss um að við séum alltaf öll að meina það sama þegar við segjum forvirkar rannsóknarheimildir. Í mínum huga væri mjög eftirsóknarvert að við værum öll með það á hreinu hvað um er að ræða þegar við erum að tala um þetta. Hugtakið er gríðarlega vítt og þess vegna held ég að það mundi hjálpa okkur verulega ef við gætum á sameiginlegum grunni reynt að negla það niður.

Í mínum huga vil ég ekki fortakslaust útiloka einhverjar slíkar heimildir, þær geta verið réttlætanlegar. Við getum ekki verið svo einföld hér á þessu landi að halda að það geti ekki hent okkur eins og nágrannaþjóðir okkar að hér séu framdir alvarlegir hatursglæpir. Það er auðvitað ábyrgðarhluti af hálfu samfélagsins (Forseti hringir.) að reyna að átta sig á því hvort eitthvað slíkt sé á ferðinni, hvort hægt sé að sjá eitthvað svoleiðis fyrir fram. Við þurfum auðvitað að hafa heimildir til þess.