144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[14:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka innilega fyrir þessar umræður. Það er gott að finna að við færumst nær hvert öðru eftir því sem við ræðum þessi mál oftar. Ég þakka jafnframt hæstv. innanríkisráðherra fyrir hennar svör og vil benda á að nú þegar hafa verið lögð fram tvö frumvörp um þessi mál á Alþingi. Annað frumvarpið, sem þingmenn Pírata lögðu fram, er byggt á því frumvarpi sem kom úr innanríkisráðuneytinu á síðasta kjörtímabili þannig að nú þegar hefur ákveðin vinna verið unnin sem byggir á því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vann að í sinni tíð sem ég býst við að réttarfarsnefnd sé að vinna út frá núna.

Mér finnst mikilvægt að við látum þessi mál ekki bíða lengi, þetta er eitthvað sem þarf að taka á nú þegar. Það kemur mjög skýrt fram að við erum ekki búin að samþykkja forvirkar rannsóknarheimildir en þær eru nú þegar til staðar. Nú þegar eru þær ástundaðar eins og kom fram í svarinu til hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar en í yfir 50% þeirra tilfella sem símar voru hleraðir var ekki tilefni til sakfellingar. Við vitum um nýlegt dæmi þar sem hlerað hafði verið hjá þekktum manni hérlendis í meira en þrjú ár án sakfellingar eða tilefnis.

Mig langar til að taka undir tillögu sem kom fram hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni. Mér finnst það mjög góð tillaga og ég legg til að við vindum okkur í að koma þessu á laggirnar. Ég vona að hæstv. innanríkisráðherra verði okkur hliðholl í því máli og vinni jafnvel að þessu með þinginu ef hún telur tilefni til þess. En ég vil endilega ítreka hve ánægð ég er með þessar umræður.