144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það óvenjulega við makrílinn er það að við erum einmitt með nokkuð hreint borð. Auðvitað erum við með lög og allt slíkt og ákveðna reynslu, en þarna er ný tegund, og það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að við vitum ekki hvað hún verður lengi. Margt bendir til að hún haldi jafnvel enn vestar, verði tímabundið hér í landhelginni, fari meira til Grænlands en nú er orðið o.s.frv.

Þegar spurt er hvort við getum farið á snið við lög svara ég því á þann hátt að við verðum að gera það til að skapa okkur réttarstöðu til lengri tíma til að tryggja að á þriggja ára tímabili, hvort sem er í makríl eða öðrum fisktegundum, sé ekki búið að ákveða framtíð sjávarútvegsins endalaust og hverjir geta fénýtt hann. Ég held að ríkið eigi að halda uppi gríðarlega öflugum vörnum og leggja mikla vinnu í að hindra að þetta gerist. Ég hefði viljað sjá frumvarp sem gæfi þau skilaboð að útilokað væri að gera þetta á þennan hátt.

Það er líka mjög forvitnilegt að skoða hvað gerist núna ef þessi takmarkaði kvóti fer á smábáta. Ég heyrði að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson hafði áhyggjur af því meðal annars að þessi kvótasetning á smábáta, línu- og handfærabáta, verði svo lítil að ekki sé mikið fyrir þá aðila að gera annað en að kaupa þá til sín eða leigja frá einhverjum öðrum innan sama útgerðarflokks eða selja sig út úr kerfinu til einhvers annars. Nú vitum við ekki markaðsverðið á því, þó að ég hafi verið að gera tilraun til þess að verðmeta það, en það er alveg ljóst að þá lenda skuldirnar á útgerðinni í staðinn. Hagkvæmni eykst ekki við það. Sumir hafa áhyggjur af því, ekki ég, að 10 kr. aukagjald verði of hátt og íþyngjandi, en hvað verður það þá ef búið er að bæta 10% vöxtum ofan á fjárfestinguna við það að ná kvóta af öðrum til þess að búa til einhverja útgerð?

Það er algjör óþarfi að fara þessa leið. Menn eiga að halda (Forseti hringir.) ársúthlutuninni og gera tilraunir með því að breyta um form á afgreiðslunni á því hverjir fá kvóta.