144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, varðandi framsalið sem er í dag í stóra kerfinu — menn eru að fá um 3.000 kr. í varanlegri sölu á kílóið af þorski versus 10 kr. sem verið er að tala um í makrílnum. Nú vitum við að makrílinn þarf að margfalda með þremur til þess að verðmæti sé sama og í þorski, þorskígildi. Telur hv. þingmaður að þeir sem fá þessa kvótasetningu og þurfa ekki að greiða hærri aðgang að þessari auðlind en 10 kr. séu þá jafn settir þeim sem eru í núverandi kvótakerfi og eru að versla innan þeirrar greinar? Er ekki líka verið að brjóta ákveðna jafnræðisreglu á milli þessara kerfa miðað við veruleikann í því markaðsdrifna kvótakerfi sem við búum við?

Hefur hv. þingmaður eitthvað skoðað verðmiðann á þessum gjörningi? Ríkisstjórnin telur sig vera þess umkomna að færa þessum hluta þjóðarinnar gífurleg verðmæti á silfurfati; þeir þurfa ekkert að hafa lagt á sig annað en það að hafa stundað makrílveiðar undanfarin ár, fimm til sex ár, og haft af þeim miklar tekjur; stórútgerðin hefur þurft að leggja lítinn kostnað í að afla sér þarna gífurlega aukinna verðmæta. En minni útgerðin, eftir að hún kom inn í veiðar, þurfti að leggja mikinn kostnað í útbúnað (Forseti hringir.) og þessi gjörningur virðist vera rothögg fyrir smábátaútgerð.