144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt af því sem ég tel mjög mikilvægt að fjallað verði um í meðförum þingsins og þingnefndar er einmitt hvaða verðmæti er verið að færa hér til. Ég hef aldrei talað um að menn geti með arði af veiðunum skapað slík verðmæti. Eitt er að hafa rétt til að veiða og hafa hagnað af því, í sjálfu sér er enginn ágreiningur í því sambandi, en hér er verið að rétta aðilum möguleikann á að fénýta auðlind án veiða.

Ef frumvarpið verður að lögum geta ákveðnir aðilar strax sagt: Ókei, ég er búinn að vera að veiða hér, ég er búinn að fjárfesta í mínum smábát, nú ætla ég að sjá hvað ég get selt þetta fyrir. Þá bara fer ég út úr greininni, fæ fyrir það einhverja peninga, einhverja upphæð, ég veit ekki hver hún verður. Ef það er þriðjungur af þorskígildi eru það verulegar upphæðir. Það kann að vera að vegna óvissunnar verði það lægra verð, við vitum þetta ekki, en við erum alltaf að tala um tugi milljarða. Og það er verið að færa það inn í bókhald hjá viðkomandi aðilum eða inn í heimilisbókhaldið ef menn fara út úr greininni. Og ef menn fara út úr greininni skilja þeir skuldina eftir hjá hinum sem tók við og hann þarf þá að borga það til viðbótar við það að fjárfesta í búnaði. Menn geta svo rætt um 10 kr, nýtt veiðileyfagjald, að það sé að kollvarpa kerfinu.

Það er þetta sem ég er svo óánægður með og læt pirra mig, þ.e. að við skulum enn einu sinni fara svona af stað og í þessu tilfelli með stofn sem hefur ekki verið veiddur í fjöldamörg ár og er ekki með íþyngjandi kaup á kvóta á bak við sig eða annað slíkt.

Hvort menn eru jafn settir eða ekki, ég átta mig ekki alveg á hvernig ég á að svara því. En það er náttúrlega alveg ljóst að við getum ekki sett makrílinn á sama stall og þorskveiðar sem verið hafa í áratugi og reynslan þar á bak við til margra ára, jafnvel þó að tímabilið þar hafi bara verið þrjú ár í veiðireynslu sem var nú nógu erfitt að (Forseti hringir.) vinna úr. Ég vil gjarnan sjá og fá að vita, í þessari umræðu, hvert markaðsvirðið er á þessum heimildum og hvað er þá verið að færa til í formi einhvers konar gjafakvóta.