144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega umræðu um þetta mikilvæga mál. Það eru tvö atriði sem mig langar að koma aðeins inn á sem mér finnst vera mikilvægt að við ræðum frekar við 1. umr.

Það er rétt að það eru skiptar skoðanir á því hvort tímasetningin á hlutdeildarsetningunni sé nú eða ekki. Það er hins vegar ekki hægt að deila um álit umboðsmanns Alþingis, þó að menn geti deilt um túlkanir á því áliti, en hann taldi að skylt væri að hlutdeildarsetja ef þau skilyrði hefðu skapast, eigi síðar en 2011 eða þá að setja sérlög, eins og við erum að gera hér. Menn þurfa þá að svara því hvenær tímasetningin er rétt, að fara að þeim lögum og þeim væntingum sem menn hafa sett sér.

Hitt atriðið kom fram í seinni hluta ræðu hv. þingmanns þar sem hann velti fyrir sér hvort þessar 10 kr. væru sanngjarnar eða ekki. Eins og fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum er erfitt að vega og meta markaðsaðstæður þegar ákveðin óvissa er um stofninn og hafa komið fram hjá ákveðnum þingmönnum ýmist mjög háar tölur eða þá að stofninn sigli út úr landinu á morgun og þá geti nú varla verið að menn ætli að fara að markaðsvirða það mjög hátt. En það er alveg hugsanlegt að í stað þess að vera með árlegt viðbótargjald að hafa eitthvert upphafsgjald. Það væri áhugavert að heyra álit hv. þingmanns á því.

Varðandi hlutdeildarsetninguna á milli smáa kerfisins og stóra kerfisins, svona til einföldunar, er það grundvallarregla í íslenskum rétti að þar gildi jafnræði. (Forseti hringir.) Í áliti umboðsmanns er ekki fjallað um að einhver hluti kerfisins geti verið frjáls ef skyldað er til hlutdeildarsetningar.