144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[14:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf engan töflureikni í þetta sinn. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég kem hingað meira í þekkingarleit en þeirri tilætlun að gagnrýna mjög góða ræðu hv. þingmanns.

Ég er að velta fyrir mér þessu máli öllu. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítill nýgræðingur þegar kemur að sjávarútvegsmálum almennt. Ég heyri það í salnum hjá þeim sem styðja þessa tillögu að það eru siðferðislegar réttlætingar fyrir því að veiðireynslan gildi, þá fyrst og fremst að menn hafi lagt í fjárfestingar til þess að veiða makrílinn og í öðru lagi að menn hafi gert ráð fyrir því að samkvæmt lögum muni þeir fá þennan kvóta og hafi því væntingar um að eignast hann.

Mér þykir skrýtið að heyra svona siðferðislegar réttlætingar á þessu fyrirkomulagi öllu saman, vegna þess að ég velti fyrir mér hvaða fjárfestingar sjávarútvegurinn hefur þurft að fara í til þess að veiða makríl frekar en eitthvað annað. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti frætt mig um það. Ég heyri að við erum meira eða minna á sama máli og þess vegna sækist ég sérstaklega eftir áliti hans og þekkingu á því. Veiða menn ekki makríl á sömu skipum og þeir veiða annan fisk? Nota þeir ekki sömu tæki eða hvað? Mér þætti mjög gott að heyra hvaða ægilegu fjárfestingar þetta eru.

Sömuleiðis velti ég fyrir mér væntingunum. Hafa menn ekki verið að græða á því að veiða makríl? Færu menn í skaðabótamál við ríkið ef þeir fengju ekki kvóta? Er kvótinn það sem menn eru að veiða makríl fyrir? Selja þeir þetta ekki á markaði, græða þeir ekki á því? Ég veit ekki alveg hvaða skaðabætur ríkið ætti að greiða, ég veit ekki alveg hvaða skaða iðnaðurinn ætti að hafa orðið fyrir ef hann fær ekki þennan kvóta ofan á það sem hann hefur væntanlega grætt réttilega með veiðum og sölu á makrílnum sjálfum.