144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er meðal annars vegna þessarar óvissu sem ég sé ekki alveg fram á skaðabótarökin og það eru þau sem ég er að reyna að átta mig á til fullnustu. Nú láta menn hérna eins og að 5. gr. tiltekinna laga sé stjórnarskrárákvæði sem við getum ekki breytt, sem er umræða sem ég vænti þess að muni halda aðeins áfram. Við getum alveg breytt lögunum en þá þurfum við alltaf að spyrja hvaða lögmætu væntingar þeir sem eru með veiðireynsluna hafa. Ég sé ekki þær væntingar vegna þess að við vitum við ekki hvernig fer með makrílinn, við vitum það eitt um framtíð makrílsins að við vitum ekki framtíð hans.

Segjum sem svo að við mundum núna einhvern veginn „svíkja“ fólkið með veiðireynsluna og það kærði ríkið. Hverjar yrðu skaðabæturnar? Á hvaða grundvelli mundi fólk sækjast eftir skaðabótum? Hverju hefur það tapað á því að veiða makrílinn?