144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur lagt fram þau rök fyrir þessu frumvarpi að það hafi komið álit frá umboðsmanni. Það hafi verið algjörlega skýrt, það hafi í reynd undirstrikað skyldu framkvæmdarvaldsins til þess að kvótasetja tegundina. Þá hafi verið hægt að bregðast við því með tvenns konar hætti, annars vegar að fara að þeirri stefnu sem kom fram í álitinu ellegar þá að setja fram sérlög. Og það er það sem hæstv. ráðherra hefur gert.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon telur að það hefði átt að hafa þessi sérlög með öðrum hætti, eða ég hef skilið hann þannig, að fremur hefði átt að skjóta einhvers konar lagastoð undir svigrúm framkvæmdarvaldsins til að hafa tímabundna sértæka stjórn á makrílveiðum. Ég er sammála því viðhorfi að það hefði átt að skoða mjög vel.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvers eðlis ættu slík lög að vera? Hvers konar heimildir ættu þau að gefa, ef hv. þingmaður hefur hugsað það til þrautar?

Í annan stað spyr ég hv. þingmann: Er ekki einboðið, eins og í pottinn er búið, að þegar og ef þetta frumvarp verður að lögum hefjist þegar í stað mjög ör samþjöppun, ekki síst innan smábátaflotans? Er það ekki þannig að vegna þess hversu lítið það er sem þarna kemur til skiptanna mun það ekki verða arðbært nema því aðeins að menn ráðist strax í samþjöppun þar? Og er ekki nokkuð ljóst þess vegna að þarna munu menn strax leysa út hagnað sinn, þ.e. mjög margir munu selja og fá pening í vasann?

Í þriðja stað: Er ekki nokkuð víst að útgerðarflokkar sem eru ekki alveg jafn hagkvæmir og stóru sérhæfðu skipin, eins og t.d. þau sem gera út á ísfiskerí, muni selja frá sér kvótann og þýðir það ekki að á stöðum eins og á sunnanverðum Vestfjörðum og á ýmsum stöðum muni skip sem hafa verið að gera út á makríl bara hverfa? Hvað segir hv. þingmaður við því?