144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér finnst að við þingmenn þurfum að spyrja okkur grundvallarspurninga þegar tækifæri gefst til að ráðstafa sameiginlegri auðlind með öðrum hætti en áður hefur verið í þessari grein. Þá þurfum við að sjá fyrir okkur hvernig við viljum, ef við komum að hreinu borði, útdeila þessari sameiginlegu auðlind og fá afgjald fyrir. Þess vegna kalla ég eftir því að menn geri upp hug sinn í þeim málum, hvernig menn vilja hafa það, en séu ekki alltaf með hugann við núverandi kerfi, að reyna að bæta það. Mér finnst hugsunin oft vera sú að við þurfum alltaf að vera að bútasauma í núverandi kerfi.

Ég heyri að hv. þingmaður er hlynntur því að fara í einhvers konar útboð. Ég hef talað fyrir því að leigja frekar innan ársins og að tengja það þannig markaðsverði hverju sinni hve hátt verð menn greiða fyrir þá leigu. Það er þá ákveðin markaðstenging en samt ekki að menn gangi alla leið og bara bjóði út í einum potti heldur skipti þessu upp miðað við þá útgerðarflokka sem eru í dag. Ég vil kannski aðeins heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því.

Mikið er talað um fyrirsjáanleika. Er hægt að tala um fyrirsjáanleika varðandi þennan stofn, sem er ólíkindatól, hvort sem mönnum líkar betur eða verr? Það er í raun aldrei hægt að gera nein plön langt fram í tímann. Með því að negla þetta niður með þessum hætti í kvótasetningu og framsali er ríkið þá ekki að kalla yfir sig kröfu um skaðabætur?