144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom ágætlega inn á það að setja hlutina í heildarsamhengi við þann gjörning sem hér fer fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, að koma með þennan gjafakvóta á silfurfati til útgerðaraðila sem hafa stundað makrílveiðar undanfarin ár.

Varðandi kjarabaráttu ýmissa stétta í landinu í dag og það alvarlega ástand sem fram undan er í þeim málum og kaupkröfur fólks — hefur hv. þingmaður sett verðmiða á eða sett þessa hluti í það samhengi? Hvaða bóluhagkerfi er verið að setja í gang í þessu kerfi með því að setja framsal á, það er kallað að það eigi að þjappa saman en það er verið að skuldsetja greinina og setja aðra út fyrir borðstokkinn ef svo má að orði komast. Ég spyr hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að þarna séu froðupeningar á ferð sem ekki er innstæða fyrir með þessari (Forseti hringir.) miklu verslun á milli sem nú skapast í stað þess að menn borgi bara eðlilegt veiðigjald fyrir afnotin.