144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sem sagt sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er ekki sama hvernig auðlindaákvæði væri orðað. En af því hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari sínu að fólk hefði ekki áhuga á kvótanum og nennti ekki að setja sig inn í hann og þar fram eftir götunum — auðvitað, af hverju skyldi venjulegt fólk hafa sérstakan áhuga á kvóta? Ég skil vel að þeir sem starfa við þetta hafi áhuga á því.

Þess vegna eigum við að búa til kerfi sem er þannig að auðlindin skili því sem hún mest getur án þess að við hér á Alþingi séum að tala um það eða eitthvert fólk á einhverjum stofnunum að reikna út þetta og reikna út hitt. Við eigum að bjóða þetta upp og hafa um það gildar reglur og láta þetta síðan rúlla af sjálfu sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)