144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:47]
Horfa

Áslaug María Friðriksdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki á mér setið að koma hérna upp eftir ræðu hv. þingmanns. Ég held það hafi komið fyrir fjórum sinnum í ræðunni að þjóðin fái hreinlega ekki neitt, fái bara ekki neitt í sinn hlut og því þurfum við að leggja á meiri gjöld og hærri gjöld og endurskoða allt verulega vel. Ég get ekki annað séð en að í þessu frumvarpi komi mjög skýrt fram að fyrirtæki í sjávarútvegi skili þjóðinni mjög miklum verðmætum og það er skýr mynd af því að til dæmis árið 2013 töldu þau upp á um 25 milljarða. Hér eru aðeins talin fyrirtæki í sjávarútvegi og ekki í tengdum greinum, því að sjálfsögðu leiða þessi fyrirtæki af sér önnur störf og nýsköpun og ný verðmæti sem við hljótum alltaf að þurfa að horfa til og hljótum líka að þurfa að vernda fyrir sköttum og gjöldum, vegna þess að það getur líka haft algjörlega þveröfug áhrif ef menn fara að misnota þau eða ef þau fara upp fyrir eðlilegt mark. Þá komum við kannski að hugtakinu „eðlilegt“ því að eðlilegt veiðigjald, eins og hér var nefnt og er eitthvað sem mér skilst að samstaða sé um, þetta hóflega veiðigjald, er ekki það sama og það er alls ekki hægt að taka undir að það sé ekki neitt og skili þjóðinni ekki neinu í dag. Ég verð að gera athugasemdir við þessa umræðu.