144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[15:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja að mér hafi hlaupið kapp í kinn hér í ræðustól þegar ég sagði að enginn fengi neitt. Auðvitað er sjávarútvegurinn undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar, þótt aðrir atvinnuvegir séu orðnir stærri núna. Ég held að ég hafi líka tekið mjög skýrt fram að það gleður hjarta mitt að hann skuli skila miklu hagræði og að sjálfsögðu greiðir hann skatta og gjöld og þar fram eftir götunum, ekki ætla ég að draga úr því. Hins vegar er til dæmis fólk sem vinnur í fiskvinnslu og fær ekki mjög há laun á meðan stjórnendur fyrirtækjanna, sem eiga þau, greiða sér ágæt laun og miklu meira en það. Það finnst mér vont.

Ég ætla ekkert að biðjast afsökunar, fólk tekur oft svona til orða, en þegar ég segi „ekkert“ þá meina ég kannski frekar „lítið“ í þessu sambandi. Ég held hv. þingmaður hafi nú skilið það. Það sem ég á við er að fyrirtækin eru tilbúin að greiða miklu meira fyrir það að veiða fiskinn í sjónum heldur en rennur í sameiginlega sjóði fyrir það, og þau greiða það hvert öðru. Það finnst mér óeðlilegt. Það er vegna þess að ef það kæmi til ríkisins værum við kannski ekki í þessum verkföllum sem við erum í núna. Þá gætum við haldið uppi betra heilbrigðiskerfi en við gerum núna. Þá gætum við haldið uppi betra menntakerfi en við gerum núna. Það verður að koma fé í opinbera (Forseti hringir.) sjóði til þess að við getum haldið uppi því þjóðfélagi sem við viljum lifa í. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)