144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

691. mál
[16:05]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stjórn veiða á makríl. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hélt hér mjög áhugaverða ræðu og var opinn fyrir því hvaða kerfi við ættum að hafa á fiskveiðum. Hann hóf mál sitt á stjórnarskrárhugmyndum stjórnlagaráðs, auðlindaákvæði, sem ég er í prinsippinu sammála. Það er ágætt að fara yfir það. Hv. þingmaður gerði það mjög vel og það skiptir mjög miklu máli að við höfum þann ramma til hliðsjónar við utanumhald um veiðar og vinnslu, um það kerfi sem við byggjum sjávarútveginn á.

Það eru auðvitað mjög ólíkir hagsmunir sem liggja víða, stærð báta og skipa, stærð rekstraraðila, samsetning veiða og vinnslu og landfræðileg staðsetning — þetta er flókið mál eins og sagan hefur kennt okkur. Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja skiptir okkar þjóð meira máli en margar aðrar þjóðir, hv. þingmaður er mér örugglega sammála um það. Reksturinn síðustu áratugi hefur sveiflast, en í seinni tíð hefur orðið mikill uppgangur og afkoma og rekstur flestra fyrirtækja batnað samhliða því og tekjur aukist. Það er ekki síst að þakka því kerfi, við getum alla vega ekki fært mjög sterk rök gegn því, að lykilhugtakið er nýting í þessum efnum. Hv. þingmaður talaði hér um tromphugtak.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hér í fyrstu spurningu hvort hann (Forseti hringir.) geti ekki verið sammála mér um það?